Veiðigjald og sjómannaafsláttur

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 13:37:11 (4328)

2004-02-18 13:37:11# 130. lþ. 66.91 fundur 336#B veiðigjald og sjómannaafsláttur# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[13:37]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ætti að vera ánægður með að meiri athygli sé vakin á hans sjónarmiðum. Auðvitað eru þau kunn á hv. Alþingi. En þegar formaður sjútvn. þingsins kemur fram og afgreiðir þetta veiðigjald með þeim hætti sem hann gerði, þ.e. að um það væri engin sátt, þá hljóta menn að hugsa: Bíddu nú við. Er ekki maðurinn að tala sem talar fyrir a.m.k. Sjálfstfl. í þessu máli? Þess vegna er ástæða til þess að menn ræði það í sölum Alþingis hvort ekki sé kominn tími til að setjast yfir þetta mál og leita sáttarinnar eins og átti að gera. Ég hvet til þess. Ég satt að segja trúi því ekki að menn ætli að gera grín að stjórnarskránni með því að setja ákvæði þar inn um þjóðareign á auðlindinni sem ekkert er að marka svipað og ákvæðið sem var sett inn í lögin um samningsveð. Ætla menn að gera það? Ég trúi því ekki.

Ég held að kominn sé tími til að menn setjist yfir þetta mál og skoði það upp á nýtt. Það vaknaði satt að segja hjá mér dálítil von þegar ég heyrði viðtalið við hv. formann sjútvn. Guðjón Hjörleifsson sem sat sjálfur í auðlindanefndinni. Þetta er nú ekki bara venjulegur Jón úr umræðunni (Gripið fram í: Þetta er Guðjón.) heldur Guðjón.