Veiðigjald og sjómannaafsláttur

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 13:39:52 (4330)

2004-02-18 13:39:52# 130. lþ. 66.91 fundur 336#B veiðigjald og sjómannaafsláttur# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[13:39]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig athyglisvert að hv. þm. Jóhann Ársælsson skuli taka þetta mál upp á hv. Alþingi. Honum finnst eitthvað vanta upp á sáttina um veiðigjaldið. Á síðasta kjörtímabili lagði ríkisstjórnin sig fram um að ná víðtækari sátt um sjávarútveginn með því að taka upp veiðigjald. Við vorum hins vegar alveg klár á því að það mundi aldrei takast 100% sátt um það mál, til þess væru hagsmunirnir of fjölbreyttir. Ég hafði hins vegar gert mér von um að víðtækari sátt yrði um þessa niðurstöðu heldur en síðan varð raunin. Ég tel mig reyndar hafa haft ástæðu til þess að gera mér þær vonir. Þær vonir voru m.a. byggðar á áliti auðlindanefndarinnar svokölluðu þar sem fulltrúar Samfylkingarinnar féllust á tvær leiðir sem kæmu til greina til þess að ná þessari víðtækari sátt.

Í vinnunni sem síðan var unnin í framhaldinu í svokallaðri endurskoðunarnefnd þar sem hv. þm. Jóhann Ársælsson átti sæti hljóp hins vegar hann og Samfylkingin frá þeirri sátt sem fulltrúar Samfylkingarinnar í auðlindanefndinni höfðu gengist inn á. Það er því að bera í bakkafullan lækinn að hv. þm. Jóhann Ársælsson skuli síðan koma hér upp og kvarta yfir því að ekki skuli vera nægjanleg sátt um veiðigjaldið og bera fyrir sig þá menn úr mínum flokki sem hafa alla tíð verið á móti gjaldinu og hafa verið staðfastir í því sem þeir hafa sagt. En það hefur hv. þm. Jóhann Ársælsson og Samfylkingin ekki verið. Fulltrúar hennar hafa verið bæði með og á móti eftir því sem hefur hentað þeim í hinni pólitísku umræðu, eftir því sem þeir hafa talið að hafi staðið best fyrir þá hverju sinni. Eins og ég segi þá var kannski bara ágætt að einmitt þessi hv. þm. hóf máls á þessu á Alþingi (Forseti hringir.) til þess, herra forseti, að við gætum rifjað upp forsendur þessa máls.