Mengun frá tímum herstöðvarinnar á Heiðarfjalli

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 13:55:12 (4339)

2004-02-18 13:55:12# 130. lþ. 66.1 fundur 539. mál: #A mengun frá tímum herstöðvarinnar á Heiðarfjalli# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[13:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Hv. þm. hefur á þskj. 814 beint til mín fjórum spurningum varðandi það mál sem hann nefnir ,,mengun frá tímum bandarísku herstöðvarinnar á Heiðarfjalli á Langanesi``.

Mál radar- og fjarskiptastöðvarinnar sem var lögð niður 1970 hefur frá 1976 verið af og til rætt hér á hv. Alþingi, ýmist í tengslum við fyrirspurnir eða þáltill. Eigendur landsins þar sem umrædd radar- og fjarskiptastöð stóð hafa gert kröfur á hendur utanrrn. frá 1974. Fram til 1989 snerust umrædd mál um hreinsun á yfirborðsrusli en eftir 1989 hefur málið snúist um meinta mengun frá ruslahaugum sem eru á landinu.

Landeigendur stefndu bandarískum og íslenskum stjórnvöldum 1997 vegna þessa máls. Hæstiréttur vísaði málinu frá vegna þess að íslenskir dómstólar ættu ekki lögsögu hvað bandarísk stjórnvöld varðaði og vegna óglöggs málatilbúnaðar hvað íslensk stjórnvöld varðaði. Landeigendur stefndu bandarískum stjórnvöldum aftur 2001. Sama sagan endurtók sig þá, Hæstiréttur vísaði málinu frá dómi vegna þess að íslenskir dómstólar hefðu ekki lögsögu í málinu.

Í tengslum við þáltill. hv. fyrirspyrjanda gerði ég Alþingi grein fyrir því hvað gerst hefði í málinu. Mengunarvarnir Hollustuverndar rannsökuðu vatnssýni á árinu 1983. Rannsóknir hérlendis sem erlendis sýndu að styrkur allra efna sem rannsökuð voru væru langt undir viðmiðunarmörkum, vatn væri vel drykkjarhæft og ekki fundust þrávirk halógenlífræn efni í þeim sýnum sem tekin voru úr haugunum. Þá reyndist blýinnihald lindarvatnsins undir greiningarmörkum í rannsókn sem umhvrn. lét gera 1994.

Í umræddri ræðu greindi ég einnig frá því að landeigendur hefðu komið á fund minn og farið fram á skaðabætur frá íslenska ríkinu. Ég benti þeim á að ég sem utanrrh. gæti ekki reitt fram skaðabætur að eigin frumkvæði, þeir yrðu að gera skaðabótakröfu á hendur íslenska ríkinu. Ég benti þeim einnig á að ég teldi að slíkar kröfur mundu enda í dómsmáli og ég hvatti þá reyndar til að fara í slíkt mál. Grundvöllur að slíkri málsókn væri vissulega sá að þeir yrðu að geta sýnt fram á að þeir hefðu orðið fyrir tjóni.

Frá því að þessi orð féllu hér á Alþingi hafa landeigendur ekki komið fram með rökstuddar kröfur um tjón. Þeir hafa t.d. ekki lagt fram neinar rannsóknir eða því um líkt sem gefur til kynna slíka mengun.

Varðandi kröfur landeigenda um að fjarlægja haugana ber þess að geta að Náttúruverndarráð lagðist gegn slíkum hugmyndum í skýrslu sinni frá 1989.

Varðandi fyrstu spurninguna, hvort ég hafi fylgt því eftir eða brugðist á einhvern hátt við sameiginlegri kröfu norrænu umhverfisverndarsamtakanna um hreinsun á Heiðarfjalli og Langanesi sem send hafi verið bandarískum stjórnvöldum, er þess að geta að ég fékk afrit af þessu bréfi og því fylgdi engin ósk um afskipti af minni hálfu, enda hef ég ekki afskipti af því.

Varðandi það sem fram kemur um framvindu mála á Resolution-eyju í Kanada, en þar ráku Bandaríkin radarstöð 1953--1972, er okkur fullkunnugt um aðgerðir Kanadamanna vegna mengunar sem þar var staðreynd og stafar einkum af þrávirkum halógenlífrænum efnum. Þau efni voru notuð sem kæliefni fyrir stórvirka spennubreyta. Í stöðinni á Heiðarfjalli voru notaðir litlir spennubreytar, svonefndir þurrspennar, sem hvorki innhéldu kælivökva né önnur skaðleg efni. Rafmagn var fengið frá dísilstöð á staðnum þannig að ekki var þörf á stórvirkum spennubreytum til að jafna spennu.

Hv. þm. spyr í þriðja lagi hvað ég hafi aðhafst til að tryggja að íslenskir aðilar, landeigendur, sveitarfélög og stofnanir, nái rétti sínum gagnvart yfirvöldum, bandarískum eða innlendum. Af hálfu utanrrn. hefur verið ítrekað við landeigendur að ef þeir telji að hagsmunum þeirra eða rétti hafi með einhverjum hætti verið raskað af margumræddri radar- og fjarskiptastöð ættu þeir að stefna íslenskum stjórnvöldum. Íslensk stjórnvöld gerðu upphaflega samninginn við landeigendur og varnarliðið kom þar hvergi nærri. Sú starfsemi sem fram fór á þessu landi var því á ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Af hálfu íslenskra stjórnvalda er alls ekki verið að leggja stein í götu landeigenda til að þeir nái ekki rétti sínum. Hið sama gildir að sjálfsögðu um sveitarfélög sem hlut eiga að máli. Landeigendur hafa hins vegar kosið að beina kröfum sínum að bandarískum stjórnvöldum eins og ofangreindar stefnur eru dæmi um og menn vita hvernig það hefur farið í Hæstarétti.

Að því er varðar síðustu spurninguna, um varúðarregluna og mengunarbótaregluna, þarf vart að taka fram að viðhorf í umhverfismálum hafa gjörbreyst frá því að umrædd stöð var rekin á Heiðarfjalli. Á þeim tíma var sorp frá stöðinni brennt og urðað í námunda við hana eins og tíðkaðist í öllum íslenskum bæjar- og sveitarfélögum og ofangreindar reglur sem eru í dag grundvallarreglur í umhverfisrétti urðu til eftir að stöðin var lögð niður og þær hafa ekki afturvirk áhrif.