Verktaka starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:14:45 (4346)

2004-02-18 14:14:45# 130. lþ. 66.3 fundur 513. mál: #A verktaka starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Allstór hópur starfsmanna Ríkisútvarpsins fékk tilkynningu frá skattyfirvöldum nýlega um ranga skráningu sem verktakar og fékk um leið endurákvarðaða álagningu tekjuskatts. Hluti þessara starfsmanna hefur ítrekað beðið um að launaleg staða þeirra verði leiðrétt, þ.e. að þeir komist á launaskrá sem almennir launþegar en ekki hefur verið orðið við því. Sumir af starfsmönnunum virðast ekki heldur hafa verið með skriflegan verktakasamning.

[14:15]

Skilgreining á verktakasamningi er að verktaki taki að sér að framkvæma ákveðið verk fyrir verkkaupa og ábyrgist árangur þess. En með ráðningarsamningi skuldbindur starfsmaður sig til að vinna hjá vinnuveitandanum gegn ákveðnum launum og starfskjörum. Verktakinn hefur mun minni réttindi, fær ekki laun í veikindum eða slysatilfellum, hefur engan orlofsrétt, slysatryggingu, mótframlög í lífeyrissjóð o.s.frv.

Allnokkrir hæstaréttardómar hafa fallið um það hvenær um launalegt samband er að ræða og hvenær verktakasamband á við milli starfsmanns og vinnuveitanda.

Með tilkynningunni frá skattyfirvöldum fengu starfsmennirnir sem ranglega voru skráðir verktakar endurálagningu tekjuskatts og var þar um verulegar fjárkröfur að ræða í mörgum tilvikum.

Ég spyr því: Hversu margir starfsmenn Ríkisútvarpsins lentu í því að vera ranglega skráðir á þennan hátt? Ég varpa þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. Hvernig ætlar stofnunin að bregðast við þessari niðurstöðu skattyfirvalda og hver er staða þessa starfsfólks nú, þá þeirra sem eru enn í óbreyttri stöðu, og svo hinna sem einhverjar breytingar hafa orðið hjá? Einhverjir eru t.d. komnir í störf annars staðar. Hvað verður gert fyrir þá eða verður eitthvað gert? Fólk skuldar skattinum háar fjárhæðir vegna þessa. Ég veit um tilvik þar sem a.m.k. einn starfsmaður er fallinn frá og aðstandendur eru algjörlega réttindalausir vegna þessarar framkomu Ríkisútvarpsins við þetta starfsfólk.

Þetta er ótrúleg framkoma opinbers fyrirtækis í garð starfsmanna sinna og maður veltir því fyrir sér hvað búi að baki. Því spyr ég hæstv. menntmrh.: Hver er ástæðan fyrir því að þetta starfsfólk Ríkisútvarpsins var ráðið sem verktakar en ekki sem almennir launþegar? Það er alveg ljóst að margir hverjir þessara starfsmanna hafa verið hjá stofnuninni í alllangan tíma og í fullu starfi. Það blasti því við að þarna hefði átt að vera um launþegasamband að ræða en ekki verktakasamband.