Verktaka starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:17:36 (4347)

2004-02-18 14:17:36# 130. lþ. 66.3 fundur 513. mál: #A verktaka starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Þar sem spurningar hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur snerta starfsemi Ríkisútvarpsins beint og varða mál sem ráðuneytinu er ekki kunnugt um að hafi verið til meðferðar hjá skattyfirvöldum þá var óskað eftir svörum frá stofnuninni vegna þessara spurninga og eru þau eftirfarandi:

Varðandi fyrstu spurninguna segja fyrirsvarsmenn Ríkisútvarpsins að þeir geti ekki sagt til um það, en bréf barst stofnuninni frá skattstjóranum í Reykjavík, dagsett 11. des. 2003, og varðaði skattskil 55 aðila. Ríkisútvarpið hefur frest til 25. febrúar 2004 til að gera athugasemdir við greint bréf, en í því er boðuð endurákvörðun virðisaukaskattsskila fjárhæðar skilaskyldrar staðgreiðslu og stofns til tryggingagjalds.

Önnur spurning hv. þm. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hvernig mun stofnunin bregðast við niðurstöðu skattyfirvalda og hver er staða þessara starfsmanna nú?``

Eins og segir í fyrstu spurningu þá munu skattyfirvöld ekki taka ákvörðun fyrr en Ríkisútvarpið og hlutaðeigandi aðilar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Viðbrögð Ríkisútvarpsins við niðurstöðu skattyfirvalda hljóta að ráðast af því hver hún verður í einstökum málum, þar með talið hvort málskotsréttar innan stjórnsýslunnar verði neytt.

Það er mjög mismunandi hver staða samningsbundinna verktaka við Ríkisútvarpið er. Sumir eru fastir starfsmenn stofnunarinnar og sinna tilfallandi aukaverkum sem verktakar. Aðrir eru fastir starfsmenn hjá aðilum ótengdum Ríkisútvarpinu en sinna tilfallandi dagskrárgerð sem verktakar. Síðan eru það aðilar eins og til að mynda dagskrárgerðarmenn í sjónvarpi sem alfarið starfa sjálfstætt sem verktakar.

Þriðja spurning hv. þm. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hver er ástæða þess að viðkomandi starfsmenn voru ráðnir sem verktakar en ekki sem almennir launþegar?``

Í svari Ríkisútvarpsins við þessari spurningu segir að á árinu 1997 hafi yfirstjórn Ríkisútvarpsins markað þá stefnu í tengslum við átak sem nefnt var Betri rekstur, að dagskrárgerð í sjónvarpi skyldi í auknum mæli unnin af sjálfstæðum verktökum. Rökin fyrir þessu eru sveigjanleiki sem nauðsynlegur er við framleiðslu á dagskrárefni. Þannig er unnt að ráða besta og hæfileikaríkasta fólkið í hvert eitt verkefni á þeim tíma sem hentar framleiðslunni. Fjöldi fólks starfar nú sjálfstætt að fjölmiðlun og kemur að hinum margvíslegu verkefnum fyrir blöð, tímarit og ljósvakamiðla. Þessir starfskraftar úti á markaðnum hafa sóst eftir afmörkuðum eða tímabundnum verkefnum hjá Ríkisútvarpinu með öðru og hefur stofnunin talið að framlag þeirra gæti orðið til að auka enn gæði dagskrárinnar með nýjum hugmyndum og fjölbreytni í útfærslu.

Þá er viðurhlutamikið að gera alla aðila sem koma tímabundið eða tilfallandi að þáttagerð að opinberum starfsmönnum. Hið sama á við um fréttaritara á landsbyggðinni og erlendis vegna þess hve aðstæður Ríkisútvarpsins til dagskrárgerðar eru breytilegar frá einu tímabili til annars með tilliti til dagskrárramma, sem er eins og við vitum breytilegur, og af fjárhagsástæðum þykir það einnig hagkvæmara fyrir rekstur stofnunarinnar að uppgjör fari fram við þessa aðila á grundvelli verksamnings fremur en vinnusamnings.

Það orkar hins vegar tvímælis að fastráðnir starfsmenn sinni jafnframt verkefnum sem verktakar. Af hálfu stofnunarinnar hefur verið ákveðið að draga úr því.