Verktaka starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:22:34 (4349)

2004-02-18 14:22:34# 130. lþ. 66.3 fundur 513. mál: #A verktaka starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum með. Ég bjóst við því að hæstv. ráðherra kannaði aðeins betur hvað þarna er á ferðinni.

Eftir að hafa kynnt mér þessi mál ítarlega verð ég að segja að margir af þeim starfsmönnum sem þarna hafa lent í skattyfirvöldum höfðu ítrekað óskað eftir því að fá lengri ráðningarsamning. Hæstv. ráðherra les hér upp úr svari frá Ríkisútvarpinu um að það þurfi betri rekstur og sveigjanleika. Vissulega er hægt að ráða starfsfólkið sem launþega í skemmri tíma með tveggja til þriggja mánaða samningum, t.d. yfir sumarið eða yfir vetrardagskrána eins og menn þekkja. Fjöldamargir þeirra sem lenda í þessu eru sem sagt búnir að vera starfsmenn Ríkisútvarpsins í langan tíma.

Menn hafa stundum talað um að í lagi sé að vera með verktakana af því að þeir fái hærri laun, þeim sé borgað fyrir það að þeir hafi ekki sömu réttindi. En því er ekki að heilsa hjá Ríkisútvarpinu. Ég hvet hæstv. ráðherra til að kanna það því að í þeim tilvikum sem ég þekki til eru menn ekki með hærri laun þó að þeir séu með mun lakari réttarstöðu en þeir sem eru fastráðnir. Ég vil þó ekki alhæfa um þetta því að auðvitað eru samningar hjá Ríkisútvarpinu persónubundnir. En þar sem ég þekki til eru þeir alls ekki betur launaðir.

Sömuleiðis verð ég að segja að mér finnst þetta vera mikill áfellisdómur yfir yfirstjórn Ríkisútvarpsins, þ.e. að þeir skuli standa frammi fyrir þessu máli. Þarna vantar ákveðna fagmennsku í launamálum og þekkingu á kjarasamningum er þarna greinilega eitthvað ábótavant. Ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðherra kynni sér þetta --- ég treysti því --- og sjái til þess að úr þessu máli verði leyst og að úr málum fólks sem stendur frammi fyrir háum fjárkröfum frá skattyfirvöldum verði leyst og það sem fyrst.