Áfengisauglýsingar

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:29:59 (4352)

2004-02-18 14:29:59# 130. lþ. 66.4 fundur 444. mál: #A áfengisauglýsingar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:29]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Fyrsta fyrirspurnin er svohljóðandi:

,,Lítur ráðherra svo á að 20. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, þar sem lagt er bann við auglýsingum á áfengi og einstökum áfengistegundum sé með einhverjum hætti fallin úr gildi?``

Nei, þessi lagagrein er ekki fallin úr gildi. Með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 25. febrúar 1999, í máli nr. 415/1998, var því slegið föstu að sú lagagrein sem hér er spurt um væri í fullu gildi og eins og segir í dómi Hæstaréttar, með leyfi virðulegs forseta: ,,Þau rök sem þannig búa að baki 20. gr. áfengislaga eiga sér efnislega stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.``

Síðan þessi dómur var kveðinn upp hefur umræddri lagagrein ekki verið breytt, og æðri réttarheimild, þ.e. stjórnarskrá lýðveldisins, ekki heldur. Lagagreinin er því í fullu gildi.

Þá er spurt: ,,Sé svo ekki, hvað er gert til að fylgja eftir þessum lögum gegn auglýsingum, duldum og augljósum, sem nú tíðkast í prentmiðlum og sjónvarpi, eins og mörg dæmi eru um?``

Samkvæmt meðferð opinberra mála er rannsókn opinberra mála í höndum lögreglu nema öðruvísi sé mælt fyrir í lögum. Kærum um refsiverð brot og beiðnum um rannsóknir skal beint til lögreglu eða ríkissaksóknara. Lögregla skal hins vegar, þegar þess er þörf, hefja rannsókn út af vitneskju eða gruni um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki. Ákæruvaldið í málum vegna brota gegn 20. gr. áfengislaga er hjá lögreglustjóranum samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Í lögum nr. 18/2003, um Lýðheilsustöð, segir í 6. gr. að hlutverk áfengis- og vímuvarnaráðs sé m.a. að hafa eftirlit með að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé framfylgt. Áfengis- og vímuvarnaráð hefur því ákveðið hlutverk ásamt lögreglu í því að hafa eftirlit með því að áfengislögum sé framfylgt sem felst þá væntanlega einkum í því að benda lögreglu á meint brot og eftir atvikum að kæra þau til lögreglu.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að ,,leyfa áfengisauglýsingar að einhverju marki eða skýra lögin og gera þau skilvirkari þannig að erfiðara sé að fara á snið við þau``?``

Slík vinna stendur ekki yfir í dómsmrn. og ráðuneytið hefur ekki sérstaklega í hyggju að hefja hana á næstunni.

Loks er spurt: ,,Telur ráðherra samræmi milli þess hvernig framfylgt er umræddum lagaákvæðum um áfengisauglýsingar annars vegar og lagaákvæðum um bann við tóbaksauglýsingum (7. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir) hins vegar?``

7. gr. tóbaksvarnalaga um bann við auglýsingum á tóbaki er ekki að öllu leyti sambærileg 20. gr. áfengislaga. Í áfengislögum er að finna heimild í 3. mgr. 20. gr. til handa framleiðanda sem, auk áfengis, framleiðir aðrar drykkjarvörur til að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.

Ekki eru til svo ég viti, virðulegi forseti, tóbakslausar sígarettur samanber hins vegar t.d. bjór sem telst óáfengur og því er ekki unnt að bera auglýsingar þessara vara saman. Af þessari ástæðu hef ég ekki sérstaklega leitt hugann að því hvort samræmi sé milli þess hvernig þessum lagaákvæðum er framfylgt.