Áfengisauglýsingar

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:35:46 (4354)

2004-02-18 14:35:46# 130. lþ. 66.4 fundur 444. mál: #A áfengisauglýsingar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að vekja máls á þessu málefni, áfengisauglýsingum. Það er rétt sem hann segir, lögum ber að hlíta og ef þeim er ekki hlítt ber að breyta lögunum eins og hann benti á.

Ég verð að segja að mér finnst bjórauglýsendur, þ.e. bjórframleiðendur, hafa sýnt ótrúlegt ábyrgðarleysi með því að grafa undan íslenskum lögum, með því að skjóta sér á bak við lagabókstafinn aftur og ítrekað. Þjóðin hefur fylgst með þessu og núna á síðustu vikum hefur framtakssamur maður, Árni Guðmundsson, formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, upp á sitt eindæmi hafið herferð í gegnum tölvurnar sínar, fengið góðan hljómgrunn með þjóðinni og við hljótum að krefjast þess að ríkisvaldið með hæstv. dómsmrh. í fararbroddi grípi til einhverra aðgerða.