Málefni heilabilaðra

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:57:24 (4362)

2004-02-18 14:57:24# 130. lþ. 66.6 fundur 545. mál: #A málefni heilabilaðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir ítarlegt og upplýsandi svar. Ég verð þó að segja að það er ýmislegt í svari ráðherra sem kemur óþægilega á óvart, t.d. að það skuli ekki vera haldin sérskráning um þá einstaklinga sem eru heilabilaðir og þurfa á vistun að halda.

Í samtölum mínum við aðstandendur heilabilaðra og eftir að hafa kynnt mér starfsemi samtaka aðstandenda heilabilaðra þá hefur m.a. komið í ljós að það er mat þeirra að vistun heilabilaðra með öðrum sjúklingum á vistunarstofnunum er oft mjög óheppileg, m.a. vegna þess að heilabilaðir, vegna sjúkdóms síns, sinna ekki venjulegum umgengnisreglum, eru oft á flökti hvenær sem er dags eða nætur og rótandi í eigum annarra og með alls konar hegðunarmunstur sem eru mjög óheppileg á almennum stofnunum.

Síðan hlýtur það að vekja manni ugg að heyra hversu háar tölurnar eru sem hæstv. ráðherra fór með um þá sem eru í brýnni vistunarþörf, þ.e. 465 manns á landinu öllu. Það er alveg ljóst að við eigum hér mjög mikið verk óunnið. Reyndar vekur það líka sérstakan ugg í brjósti manns þegar maður veit það að verið er að draga úr þjónustu jafnframt því sem verið er að opna, því að það er jú verið að loka ákveðnum deildum sem þjónusta heilabilaða og aldraða.