Málefni heilabilaðra

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:59:40 (4363)

2004-02-18 14:59:40# 130. lþ. 66.6 fundur 545. mál: #A málefni heilabilaðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:59]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að vistun heilabilaðra með öðrum inni á stofnunum getur verið óheppileg og það eru stöðugar viðræður við rekstraraðila stofnana um það hvernig hægt er að skilja að inni á stofnunum þá sem eiga við þessi vandamál að stríða og hina. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda um þau vandkvæði.

Það er rétt að ég sagði að 456 væru í brýnni þörf á landinu öllu. Mikill meiri hluti þeirra er hér á höfuðborgarsvæðinu. Það eru yfir 300 manns í Reykjavík einni. Þetta vandamál er bundið við borgina að mjög miklu leyti og Akureyri. En ég held að hitt sé á misskilningi byggt, það sem ég talaði um sem viðbótarrými er hrein viðbót, við vorum að taka mjög stór skref í þessu á síðasta ári og yfirstandandi ári og hefur verið gert sérstakt átak í þeim efnum. Og varðandi frv. sem ég talaði fyrir í gær, um málefni aldraðra, þá gerir það ráð fyrir að gert sé sérstakt átak í þessari uppbyggingu. Ég legg áherslu á það að við vinnum okkur áfram í þessu máli og eins að við aukum þjónustuna með dagvistun, með heimahjúkrun. Það er stefnt að því.