Kadmínmengun í Arnarfirði

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 15:02:51 (4364)

2004-02-18 15:02:51# 130. lþ. 66.7 fundur 109. mál: #A kadmínmengun í Arnarfirði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MÞH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson):

Virðulegi forseti. Þann 4. desember árið 2001 voru veiðar á hörpudiski bannaðar í Arnarfirði. Ástæðan var sú að nokkrar prufur sem teknar voru höfðu sýnt að of mikið af þungmálminum kadmín mældist í holdi hörpudisksins. Var hann því talinn óhæfur til manneldis samkvæmt alþjóðlegum stöðlum þótt gildin væru reyndar lág. Þessi kadmínmengun, ef svo má kalla, kom flestum ef ekki öllum í opna skjöldu því ekki var vitað um neitt sem gæti valdið slíkri mengun af mannavöldum. Reyndar kom fljótlega í ljós það álit sérfræðinga að hér væri um að ræða mengun af náttúrulegum orsökum.

Þungmálmar finnast að sjálfsögðu í náttúrunni og einhverra hluta vegna þá mælist óvenjumikið af kadmín í Arnarfirði, sem er einn af stærstu fjörðum Vestfjarða. Mál þetta vakti með öðrum orðum verulega athygli á sínum tíma. Hætta varð við áform um veiðar og vinnslu hörpudisks á Bíldudal. Áætlað hafði verið að þessi vinnsla mundi skila átta störfum, tvo til þrjá mánuði á ári og tekjum inn í bæjarfélagið upp á 25--30 millj. kr. Þetta var því nokkurt högg fyrir þorpið og líka bagalegt að því leyti að segja má að þetta hafi skaðað ímynd fjarðarins, Arnarfjarðar, þeirrar miklu matarkistu um aldir. Í framhaldi af þessu fóru menn t.d. að setja spurningarmerki við rækjustofninn í firðinum og varð nokkur umræða út af því.

En Fiskistofa bannaði veiðar í firðinum. Þetta var aðeins byggt á þremur prufum á sínum tíma, sem teknar voru sumarið 2001 í ágúst og rannsakaðar af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Frá þessu áfalli fyrir um þremur árum síðan hefur lítið heyrst um kadmínmengunina í Arnarfirði. Hins vegar er enn þá bannað að veiða hörpudisk í firðinum.

Ég vil því beina eftirfarandi spurningu til hæstv. umhvrh.:

,,Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna ástæður og útbreiðslu kadmínmengunar í Arnarfirði? Hyggst ráðuneytið beita sér fyrir frekari rannsóknum á þessari mengun?``