Kadmínmengun í Arnarfirði

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 15:09:53 (4367)

2004-02-18 15:09:53# 130. lþ. 66.7 fundur 109. mál: #A kadmínmengun í Arnarfirði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MÞH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. umhvrh. fyrir svörin við fyrirspurn minni.

Ég fagna því að menn hafi tekið sig til og sett í gang rannsóknarverkefni til að athuga þetta betur. Mér finnst þetta mál á margan hátt ákveðið prinsippmál hvað varðar umhverfisvöktun og grunnrannsóknir í hafinu og hafsbotninum umhverfis Ísland.

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að hafa unnið heimavinnuna okkar þegar svona mál koma upp, bæði í mengunartilfellum eins og hér um ræðir og einnig að við höfum í höndunum gögn, góð gögn um magn svona efna í ýmsum afurðum, sjávarafurðum og öðrum afurðum á Íslandi. Það er oft þannig að upp geta komið tilfelli af þessu tagi og í kring um þau orðið mikið fjölmiðlafár. Þessi tilfelli geta komið upp mjög óvænt og þetta mál er gott dæmi um það. Þá er mikilvægt fyrir okkur að hafa svörin á reiðum höndum og hafa gögnin tilbúin.

Þrátt fyrir að menn hefðu, eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson benti á, mátt byrja fyrr þá ber að sjálfsögðu að fagna því að hreyfing skuli komin á málið. Vonandi munu niðurstöðurnar sýna fram á að kadmínmengun í Arnarfirði sé í raun ekki fyrir hendi.