Malarnám í Ingólfsfjalli

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 15:20:51 (4371)

2004-02-18 15:20:51# 130. lþ. 66.8 fundur 129. mál: #A malarnám í Ingólfsfjalli# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., KÓ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Á þessu máli sem og mörgum öðrum eru tvær hliðar. Malarnámurnar í Ingólfsfjalli hafa verið ákveðin gullnáma fyrir Vegagerðina, fyrir sveitarfélögin og einstaklinga sem hafa verið með framkvæmdir í nágrenni námanna. Það er mjög langt í malarnám í aðra staði en námurnar á Þórustöðum við Ingólfsfjall. Menn eru að tala um að fara í Þrengslin sem er kannski hringur upp á 50--60 km þannig að það má ætla að við hverja einstaklingsíbúð á Selfossi til að mynda yrði kostnaðarmunur upp á 500--700 þús. Það má því segja að í þau ár sem þessar námur hafa verið notaðar hafi þær skilað byggðarlaginu miklum auði.

Spurningin varðandi þetta mál er kannski sú hvert framhaldið verður. Það sem við sjáum í dag er orðinn hlutur. En hvert verður framhaldið og hvernig verður frágangi háttað?