Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 15:45:48 (4376)

2004-02-18 15:45:48# 130. lþ. 67.21 fundur 279. mál: #A stjórnarskipunarlög# (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) frv., Flm. KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 315 frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á tveimur greinum stjórnarskrárinnar. Fyrri tillagan er breyting á 28. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um heimild ríkisstjórnarinnar eða heimild til útgáfu bráðabirgðalaga og hvernig með það skuli fara. Ég legg til að sú grein stjórnarskrárinnar sem kveður á um þessa heimild verði felld brott og að löggjafarvaldið verði þar með einvörðungu á Alþingi en ekki að hluta til hjá framkvæmdarvaldinu eins og er á meðan þetta fyrirkomulag er við lýði sem við búum við nú.

Í öðru lagi legg ég til að gerð verði breyting á 2. málslið 51. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir, með leyfi forseta, um ráðherra:

,,Atkvæðisrétt eiga þeir þó því aðeins, [á Alþingi] að þeir séu jafnframt alþingismenn.``

Ég legg til að þessi málsliður orðist svo, með leyfi forseta:

,,Ráðherra má ekki vera alþingismaður.``

Þessi síðari tillaga er í samræmi við samþykkt síðasta flokksþings Framsfl. Þar var flutt tillaga þess efnis að ráðherrar ættu ekki sæti á Alþingi og var hún samþykkt. Hún er líka í samræmi við frv. til stjórnarskipunarlaga sem hér hefur áður verið flutt á 123. löggjafarþingi. Flutningsmaður hennar var Siv Friðleifsdóttir nú hæstv. umhvrh.

Ég er í hópi þeirra sem telja að Alþingi þurfi að styrkja sig frá því sem verið hefur. Hið nána samband milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds hefur leitt til þess að framkvæmdarvaldið hefur styrkst verulega á kostnað löggjafarvaldsins og þær breytingar hafa orðið í stjórnsýslunni á undanförnum árum, einkum frá 1997 með samþykkt nýrra laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, að tekið hefur verið í æ ríkari mæli fyrir þátttöku alþingismanna í starfi innan framkvæmdarvaldsins og völd stjórna og ráða sem þingmenn höfðu setið gjarnan í fram að því hafa verið færð annars vegar til ráðherrans sjálfs og hins vegar til forstöðumanna ríkisstofnana. Þessi þróun er í gangi og ekki er annað að sjá en að hún verði það áfram, þ.e. að skilið verði með gleggri hætti þeim megin frá milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Ég tel eðlilegt að menn stígi þá skrefin í samræmi við þessa þróun á hinn veginn og taki fyrir þátttöku framkvæmdarvaldsins á löggjafarþinginu með beinum atkvæðisrétti.

Hin breytingin sem flutt er um heimild til þess að setja bráðabirgðalög hefur verið rædd á Alþingi oft áður og síðast árið 1991 þegar stjórnarskrárbreyting var gerð og deildaskipting Alþingis afnumin. Þá var gerð breyting á þessari grein stjórnarskrárinnar og settar ákveðnar skorður við því hvernig staðið er að því að gefa út bráðabirgðalög og hvernig þau eru síðan í framhaldinu staðfest á Alþingi. Þá komu fram mjög skýr sjónarmið alþingismanna, einkum framsögumanna fyrir málinu og nefndarálitum svo sem hv. þm. Ólafs G. Einarssonar og Margrétar Frímannsdóttur. Þar kom mjög skýrt fram sá skilningur af hálfu Alþingis að þessi heimild sem eftir var skilin í stjórnarskránni til þess að gefa út bráðabirgðalög yrði aðeins notuð í sérstökum neyðartilvikum og ætti helst aldrei að nota. Menn sáu ekki fram á að til þessarar heimildar þyrfti að grípa við þær aðstæður sem við búum við í dag. Þessi breyting hefur leitt til þess að útgáfa bráðabirgðalaga hefur breyst. Fyrir þessa stjórnarskrárbreytingu 1991 var töluvert algengt að gefin væru út bráðabirgðalög. En eftir breytinguna hefur dregið mjög úr því. Ég hygg að dæmi um það séu aðeins örfá, líklega um tugur eða svo og er sú þróun út af fyrir sig í samræmi við vilja Alþingis á þeim tíma. En það er mitt mat að í öllum þeim tilvikum sem heimildin hefur verið notuð frá 1991 hafi verið unnt að afgreiða málið með því að kalla þingið sjálft saman og láta það um að afgreiða löggjöf um efni sem til umfjöllunar var hverju sinni. Ég legg því til í frv. að gengið verði alla leið í þessu efni og heimildin til útgáfu bráðabirgðalaga afnumin með öllu.

Herra forseti. Ég legg til að þessu þingmáli verði vísað til 2. umr. og sérstakrar nefndar sem tekur við frumvörpum til stjórnarskipunarlaga.