Málefni Palestínumanna

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 10:53:31 (4387)

2004-02-19 10:53:31# 130. lþ. 68.94 fundur 341#B málefni Palestínumanna# (umræður utan dagskrár), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[10:53]

Gunnar Örlygsson:

Virðulegi forseti. Eftir að hafa barist fyrir falli Berlínarmúrsins um áratuga skeið hefur annar múr verið reistur. Bygging nýja múrsins er á landsvæði palestínsku þjóðarinnar og hefur tilvera hans verið harðlega gagnrýnd um allan heim og þá sérstaklega af mannréttindasamtökum.

Aðskilnaðarstefna ólíkra þjóðarbrota hefur alltaf verið gagnrýnd í mannkynssögunni og hefur aldrei átt rétt á sér. Í raun hefur aðskilnaðarstefna undantekningarlaust alið á frekara hatri og úlfúð fylkinga á milli. Nútímahugsunarháttur og nútímaviðhorf hafa breyst í þeirri miklu þróun sem upplýsingasamfélagið hefur alið af sér. Ungt fólk frá öllum þjóðum veraldar hefur í dag langtum betra aðgengi að gangi mála á alþjóðlegum vettvangi. Því er öllum ljóst, nema ef vera skyldi ráðamönnum í Bandaríkjunum og Ísraels, hversu mikil firra bygging hins nýja múrs er.

Bygging múrsins er skýlaust brot á almennum mannréttindum og í raun afturhaldssemi misviturra ráðamanna sem koma vilja á frekari úlfúð og hatri fylkinga á milli og fórna almennum mannréttindum á altari sinnar eigin peningastefnu.

Virðulegi forseti. Íslensk þjóð verður að fordæma þetta verk og gera það í verki.