Málefni Palestínumanna

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:01:40 (4391)

2004-02-19 11:01:40# 130. lþ. 68.94 fundur 341#B málefni Palestínumanna# (umræður utan dagskrár), Flm. MÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:01]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem er óvenju eindregin á Alþingi. Að öðrum fullkomlega ólöstuðum vil ég sérstaklega þakka hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur sem hér hefur lagt fram af sinni miklu reynslu sem allir þekkja.

Ýmsir töldu að hætta væri á stefnubreytingu íslensku ríkisstjórnarinnar og hæstv. utanrrh. í málefnum Palestínumanna vegna dauflegra ummæla hans um þau mál og engra raunar langa stund. Ég tel sérstaka ástæðu til þess að taka undir fordæmingu utanrrh. á múrnum og fagna því að hann skuli hér ótvírætt og afdráttarlaust fylgja fram áður mótaðri stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar og Alþingis Íslendinga í þessu máli. Ég verð hins vegar að taka undir þá gagnrýni á hæstv. utanrrh. að deilurnar og átökin fyrir botni Miðjarðarhafs eða fyrir Miðjarðarhafsbotnum eru ekki knattspyrnuleikur þar sem bæði lið mæta með 11 menn eða kabbojhasar þar sem annars vegar eru kabbojar og hins vegar indjánar í bakgörðum heldur er um að ræða kúgun, því miður, eins ríkis á annarri þjóð. Það er auðvitað í því ljósi sem við verðum að skoða þetta mál allt og þá er ég ekki að afsaka hryðjuverk eða öfgar Palestínumegin.

Málið er flókið en þó er ljóst að einn maður á hverjum tíma situr með lykilinn í málinu. Það er, og þarf ekki að skýra það frekar, forseti Bandaríkjanna. Við sem erum bandamenn þessara Bandaríkja eigum að nota hvert tækifæri sem við höfum til þess að hvetja einmitt þennan forseta og hans menn til þess að nota lykilinn til lausnar á málinu. Það gerði Bush eldri. Það reyndi Clinton en Bush yngri hefur ekki staðið sig í þessu efni. Ég hvet hæstv. utanrrh. til þess að taka þetta mál upp á öllum þeim vettvangi sem hann kann, sérstaklega við Bandaríkin.