Málefni Palestínumanna

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:03:53 (4392)

2004-02-19 11:03:53# 130. lþ. 68.94 fundur 341#B málefni Palestínumanna# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:03]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Við höfum fordæmt byggingu múrsins með ótvíræðum hætti á vettvangi SÞ. Þá spyrja menn: Af hverju sat Ísland hjá þegar leitað var eftir því að vísa málinu til dómstólsins í Haag. Það gerðum við ásamt 77 öðrum þjóðum, öllum Norðurlöndunum og öllum Evrópusambandsríkjunum.

Svarið er einfalt. Við teljum það í sjálfu sér óþarft vegna þess að afstaða okkar er skýr. Við teljum okkur ekki þurfa þess vegna að fá álit Alþjóðadómstólsins í Haag. Þar að auki teljum við að það geti tafið og spillt fyrir friðarferlinu.

Ef úrskurður Alþjóðadómstólsins í Haag verður ótvíræður þá mundi það verða hjálp í þessu máli. Ef hann er hins vegar óljós sem ástæða er til að ætla vegna þess að þar koma saman dómarar frá mörgum löndum sem gætu leitað málamiðlunar þá gæti sá úrskurður orðið vatn á myllu Ísraelsríkis til þess að treysta múrinn í sessi þannig að það er ekkert ótvírætt að fá álit Alþjóðadómstólsins í Haag. Ég veit ekki til þess að Íslendingar hafi ávallt viljað fá þann dómstól til þess að úrskurða um viðkvæm mál.

Hér hefur verið nefnt í umræðunum að nauðsynlegt sé að þarna komi alþjóðlegt friðargæslulið. Ég tek undir það. Ég tel að þessi deila verði aldrei leyst nema alþjóðlegt friðargæslulið komi þar til skjalanna. En það er athyglisvert að vaxandi áhugi er fyrir því að Atlantshafsbandalagið komi þar inn. Sú umræða er áhugaverð og það er mikilvægt fyrir Íslendinga að fylgjast þar með framvindu mála því svo kann að fara að Atlantshafsbandalagið einhvern tíma í framtíðinni þurfi þar að koma að.