2004-02-19 11:06:54# 130. lþ. 68.93 fundur 340#B umræða utan dagskrár um málefni Palestínumanna og þingsályktunartillaga um aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# (um fundarstjórn), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Mörður Árnason:

(Utanrrh.: Það rignir í ræðustólinn.) (Gripið fram í: Verður ekki að útvega manninum regnhlíf?) Það rignir bæði á réttláta og rangláta, ágæti forseti.

Vegna þeirra orða sem forseti viðhafði hér áðan þegar hann bað hv. þm. Steingrím J. Sigfússon sérstakrar afsökunar á því að þessi utandagskrárumræða færi fram í dag þá vil ég taka fram að ég lagði inn beiðni mína um þessa utandagskrárumræðu áður en þing hófst að nýju eftir jól. Síðan er liðinn nokkur tími. Ég vissi ekki um tillögu þeirra hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar fyrr en ég rakst á hana í gær þegar ég var að leita að gögnum í tölvusafni þingsins og biðst auðvitað afsökunar á því að hafa ekki gert mér grein fyrir þeirri stórmerku tillögu. Ég brást þá þannig við vegna þess að málin voru skyld --- ekki þau sömu, herra forseti, en skyld --- að ég hafði samband við annan flutningsmann þessa máls, þann sem hér var í salnum þegar að þessu kom, hv. þm. Ögmund Jónasson, og sagði honum frá þessu. Hann taldi enga meinbugi á því af sinni hálfu og flutningsmanna að þessi umræða færi hér fram. Ég sagði á móti að ég mundi minnast á þessa þáltill. og gera það sem ég ætlaði að gera í síðari ræðu minni --- og enn hrjóta dropar af þaki þingsins. (Gripið fram í.) Hér er ekki við mig að sakast heldur verður forseti að eiga um þetta við sjálfan sig og auðvitað þá sem með honum stjórna starfi þingsins.

Ég vil hins vegar taka fram að þáltill. þeirra félaga hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar er prýðileg tillaga og ég fagna því að hún verði tekin til umræðu strax á eftir (Forseti hringir.) og ég tel að ...

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þm. að vera ekki með efnisumræður um einstök þingmál. Hv. þm. hefur lokið máli sínu.)

... við eigum að styðja hana.