2004-02-19 11:10:33# 130. lþ. 68.93 fundur 340#B umræða utan dagskrár um málefni Palestínumanna og þingsályktunartillaga um aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:10]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hefði gjarnan kosið að við hefðum getað haldið okkur við dagskrá og tekið til við að ræða þetta þingmál. Ég held að tíma þingsins hefði í sjálfu sér verið betur varið í það. Ég ætlaði fyrst og fremst að þakka hæstv. forseta fyrir þá tillitssemi að leyfa þessum tveimur umræðum að vera samhangandi úr því að þær bar báðar upp á sama daginn.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að gera sérstakar athugasemdir við að þessi utandagskrárumræða færi fram. Ummæli mín bar ekki endilega að skilja þannig. En úr því að hv. tillögumaður bað um þessa umræðu einum tveimur mánuðum eftir að þingmál um nánast sama atriði var komið fram og vék þar að auki ekki einu orði að henni í framsöguræðu sinni, að hún lægi hér fyrir, þá réði ég af því að honum væri ekki kunnugt um tilvist hennar eða hefði a.m.k. ekki verið fyrr en í gær.

Það er rétt að formaður þingflokks okkar upplýsti að málshefjandi hefði komið að máli við hann og sagt að hann hygðist taka þetta mál upp. Okkur var því ekki ókunnugt um það. Að öðru leyti er það auðvitað í höndum forustu þingsins að ákveða hvenær dagskrármál liggja fyrir með þeim hætti að eðlilegra sé að umræður um viðkomandi málefni fari fram innan dagskrár en ekki utan. Það er um það sem þetta snýst. Það er verkstjórnarlegt skipulag sem á að skera úr um þá hluti. Í sjálfu sér fagna ég stuðningi og áhuga við þetta mál hvaðan sem hann kemur og hvernig sem hann birtist.

Ég vil bara leyfa mér, úr því að þessi umræða er hafin á annað borð, að halda uppi nokkrum málsvörnum fyrir þingmenn sem leggja vinnu í að flytja þingmál. Sýna mætti þeim þann sóma að þeir séu ekki settir áberandi skör neðar í sambandi við skipulag þinghaldsins en upptaka mála utan dagskrár. Hefði t.d. þannig tekist til að þetta mál hefði ekki komist að fyrr en síðdegis í dag, hæstv. utanrrh. farinn af þingi og tepptur í öðrum störfum, hefði umræðan um dagskrármálið farið fram að honum fjarstöddum en utandagskrárumræðan er þannig skipulögð að ráðherra er viðstaddur og til svara. Ég held að þetta nægi til að benda á að með slíkum framgangsmáta, slíku skipulagi, væri dagskrármálinu gert lægra undir höfði heldur en umræðunni utan dagskrár. Það er væntanlega ekki eins og við þingmenn viljum almennt hafa það. Þá missir það talsvert marks að við leggjum vinnu í að ganga formlega frá hlutunum í formi framlagningar þingmála.