Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:29:20 (4400)

2004-02-19 11:29:20# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:29]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér dettur ekki í hug að verja byggingu múrsins í landi Palestínu og Ísrael, síður en svo. En mig langar að víkja aðeins að 1. lið þessarar till. til þál., sem gengur út á að ríkisstjórninni verði falið að koma á framfæri mótmælum við byggingu múrsins til ísraelsku ríkisstjórnarinnar. Tillagan ber það með sér, eða það má lesa út úr henni, að íslensk stjórnvöld hafi ekkert gert til þess að fordæma byggingu þessa múrs. Það er ekki rétt, alls ekki. Menn verða að gæta sanngirni í málflutningi sínum og halda því til haga að slíkum mótmælum hefur verið komið á framfæri. Það var síðast gert, að því er ég hygg, á allsherjarþingi SÞ sem haldið var eftir því sem ég best veit í október eða nóvember sl.

Af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði því skóna að Bandaríkjamenn styddu byggingu þessa múrs, þá vil ég benda á að svo er ekki. Bandaríkjamenn komu á framfæri mótmælum sínum við byggingu múrsins. Það er mikilvægt að þessu sé haldið til haga, að því sé haldið til haga að íslensk stjórnvöld hafa brugðist við aðgerðum ísraelsku ríkisstjórnarinnar. Í framhaldi af því væri ágætt að fá fram frá hv. flutningsmanni, 5. þm. Norðaust., Steingrími J. Sigfússyni, upplýsingar um með hvaða hætti íslensk stjórnvöld eigi að koma mótmælum sínum á framfæri, umfram það sem þegar hefur verið gert. Mótmælin og afstaða íslenskra stjórnvalda til málsins liggur alveg klár fyrir.