Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:31:34 (4401)

2004-02-19 11:31:34# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:31]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta eigi ekki að þurfa að verða tilefni til mikillar misklíðar eða ágreinings. Tillagan var flutt strax í byrjun nóvember og að einhverju leyti kunna mótmæli ríkisstjórnarinnar að hafa orðið opinber eftir það. Í öðru lagi er það í góðu lagi af hálfu okkar flutningsmanna að orðalag sé haft með hliðsjón af því að að einhverju leyti hafi slík mótmæli þegar komið fram og þá mundi þetta snúast fremur um að ítreka þau og herða á þeim.

Tillögugreinin felur reyndar fleira í sér sem ég veit ekki hvort íslensk stjórnvöld hafa formlega sett fram, þ.e. kröfu um að framkvæmdir verði stöðvaðar og hafist verði handa um að fjarlægja múrinn. Yfir þetta má að sjálfsögðu fara í hv. utanrmn.

Varðandi afstöðu Bandaríkjamanna til múrsins á það að heita svo að þeir styðji að sjálfsögðu ekki byggingu hans. En hvað hafa Bandaríkin á hinn bóginn gert til þess að koma í veg fyrir að hann rísi? Veita ekki Bandaríkjamenn Ísraelsríki áfram þann gríðarlega fjárstuðning annars vegar hernaðarlegan og hins vegar hreinan efnahagslegan sem auðvitað heldur því ríki uppi og gerir því kleift að halda úti þeim hernaðarumsvifum sem raun ber vitni? Í framgöngu Bandaríkjamanna að þessu leyti gætir því talsverðs tvískinnungs, leyfi ég mér að segja, og tel þá tiltölulega hógværlega að orði komist, þannig að í því ljósi held ég að beri að skoða þetta.

Ég held líka að menn eigi að hafa það í huga, og það er m.a. tekið fram í einstæðri samþykkt Rauða krossins, að þó svo að menn viðurkenni rétt Ísraelsríkis til að reyna að verja sig fyrir hryðjuverkaárásum, sem enginn að sjálfsögðu réttlætir, verður að gera þá kröfu til þess ríkis eins og allra annarra að allar slíkar aðgerðir séu lögmætar að alþjóðalögum, og það er sáralítil deila um það í heiminum að múrinn er ólöglegur. Vandinn er hins vegar sá, eins og ég hef áður komið að á þessum degi úr þessum ræðustóli, að Ísrael hefur auðvitað komist upp með það í stórum stíl að hunsa bæði alþjóðalög og ályktanir Sameinuðu þjóðanna.