Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:33:53 (4402)

2004-02-19 11:33:53# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:33]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að við þurfum ekki að fara í miklar pólitískar deilur á hinu háa Alþingi um réttmæti þess að byggja þennan múr. Ég hygg að allir sem hér eru séu sammála um að réttmæti þeirrar byggingar er ekki til að dreifa. En ég sá mig hins vegar knúinn til þess að koma upp í þetta síðasta andsvar til að vekja athygli á því að stjórnvöld á Íslandi hafa brugðist við þessari byggingu með formlegum hætti og það var gert á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Hins vegar fannst mér athyglivert að hv. þm. skyldi ekki geta þess sérstaklega í framsöguræðu sinni þegar hann flutti tillöguna á hinu háa Alþingi. Hann gat þess heldur ekki að afstaða Bandaríkjamanna til byggingar múrsins lá jafnframt fyrir á þessu sama allsherjarþingi. Og þrátt fyrir það að ekki komi fram í grg. með þáltill. að þessi afstaða liggi fyrir, enda hefur hún kannski ekki legið fyrir þegar greinargerðin var samin, hefði ég talið það rétt og drengilegt að taka það fram í umræðunni og í ræðu hv. þm.