Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:42:22 (4404)

2004-02-19 11:42:22# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:42]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir ræðuna og þátttöku í umræðunni. Ég vil spyrja í sambandi við það sem hæstv. ráðherra segir og er ánægjulegt að afstaða Íslands og andstaða við byggingu múrsins hafi komið skýrt fram og hæstv. ráðherra nefnir í því sambandi Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið og norrænan vettvang eða Norðurlöndin, en spurning mín lýtur að því, og það er í raun og veru að hluta til það sem tillögugreinin gengur út á, hvort formleg mótmæli hafi verið send ísraelskum stjórnvöldum. Hefur formleg orðsending eftir diplómatískum leiðum þar sem þessari gjörð ísraelskra stjórnvalda er mótmælt, verið afhent t.d. ísraelska sendiherranum á Íslandi sem, ef ég man rétt, situr í Ósló?

Í öðru lagi um friðargæslulið og möguleikann á að koma því inn á svæðið þá er mikilvægt að hafa í huga það sem hæstv. ráðherra nefndi, að auðvitað eru hófsöm öfl innan Ísraels sem skiptir miklu máli að halda sambandi við og þar var nefndur Shimon Peres. Það er áhugavert í sjálfu sér að menn af hans tagi horfi núna meira til Evrópu. En er það ekki m.a. vegna þess að menn horfast í augu við þá staðreynd að bandarísk stjórnvöld eru algerlega föst í klónum á ríkum og heittrúuðum gyðingum vestan hafs sem styðja ofstækisfyllstu öflin í Ísrael? Meðan svo er og meðan efnahagsleg og pólitísk áhrif gyðinga vestra eru jafnrík og mikil og raun ber vitni í blaðaheiminum, í háskólaheiminum og efnahagslífinu, og þeir láta jafndigrar fjárhæðir af hendi rakna í kosningasjóði, er því miður ekki líklegt að margt breytist í bandarískum stjórnmálum.

Auðvitað þarf að hafa þessi hófsemdaröfl í huga og rétt að minnast þess að þúsundir Ísraela eru á heimastjórnarsvæðum Palestínu sem sjálfboðaliðar við friðargæslu.

Ég er svo að lokum algerlega sammála hæstv. ráðherra um það að lausn Palestínudeilunnar er auðvitað alger lykill að friði og stöðugleika og framþróun í Miðausturlöndum.