Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:48:33 (4407)

2004-02-19 11:48:33# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skiptir miklu máli að samstaða ríki á þessu þingi gagnvart þeirri deilu sem er fyrir botni Miðjarðarhafsins. Það kom fram í svari hæstv. utanrrh. gagnvart spurningum hv. þm. Marðar Árnasonar í utandagskrárumræðu áðan að sú samstaða ríkir.

Það sem mér finnst skipta máli er að hæstv. utanrrh. skýri hvaða afstöðu hann og íslenska ríkisstjórnin hafa til þeirra umræðna sem hann upplýsir að séu nú í gangi innan Atlantshafsbandalagsins um möguleikana á því að einhvers konar friðargæslusveitir á þess vegum verði sendar til átakasvæðanna.

Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar, og við í Samf., að það skipti mjög miklu máli að alþjóðlegt friðargæslulið komi inn á þetta svæði. Við höfum heyrt það í umræðunum í morgun að Ísraelsmenn vilja auðvitað hafa líf og örlög palestínsku þjóðarinnar í hendi sér. Þeir vilja ekki fá friðargæslusveitir þarna inn. Mér finnst það nokkur tímamót ef málin eru að snúast þannig að Atlantshafsbandalagið sé að velta því fyrir sér í fullri alvöru að senda þangað inn sveitir til að stilla til friðar. Mér hefur sjálfum þótt sá ás sem hefur að miklu leyti borið uppi hernaðarmátt bandalagsins, Bandaríkin, hafa mjög skirrst við að hlusta á raddir sem hafa óskað eftir nærveru þeirra þarna.

Nú eiga Íslendingar kost á því að taka þátt í umræðu um það innan Atlantshafsbandalagsins. Hæstv. utanrrh. upplýsir um það. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvert verður tillegg og viðhorf íslensku ríkisstjórnarinnar til hugmynda um að friðargæslusveitir á vegum Atlantshafsbandalagsins komi inn á þetta svæði?