Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 11:56:52 (4411)

2004-02-19 11:56:52# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[11:56]

Össur Skarphéðinsson:

Virðulegi forseti. Ég kem í þennan stól til að segja að ég styð þá tillögu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson hafa hér flutt. Það skiptir miklu máli varðandi afstöðu Íslendinga í þessu að hún sé sem víðtækust og það ríki einhugur um hana. Mér þykir vænt um að allir þeir sem hér hafa talað í dag hafa sýnt það með orðum sínum að þeir vilja styðja að rödd Íslands hljómi sterklega á þessum vettvangi.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson ræddi þetta lítillega fyrr í morgun, og mér fannst gott að heyra hjá hv. þingmanni, þó að hann fyndi að málflutningi hv. málflytjanda, að hann styður hugsunina sem í þáltill. er.

Við Íslendingar eigum með vissum hætti frumburðarrétt á tilvist Ísraelsríkis. Það voru Íslendingar sem undirbjuggu og lögðu fram tillöguna sem beinlínis varð til þess að Ísraelsríki var stofnað. Sökum þess höfum við alltaf hér á Íslandi haft veikan blett í hjarta okkar gagnvart Ísrael og við höfum haft tilhneigingu til að styðja það mjög dyggilega.

Nú hefur þróunin orðið þannig í Ísrael að það er ákaflega erfitt að vera vinur Ísraels í þeim mæli sem margir voru áður. Ég t.d. fylgdist af miklum áhuga sem ungur maður með uppbyggingu og þróun þess ríkis. Mér finnst nú sem þeir hafi misnotað þann stuðning sem alþjóðasamfélagið hefur veitt þeim. Mér finnst að það skipti ákaflega miklu máli að við, sérstaklega við sem eigum ákveðinn frumburðarrétt á Ísraelsríki, segjum þeim líka mjög skýrt hvað okkur finnst um framferði þeirra.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson benti á að Íslendingar hefðu nú þegar lýst því yfir í formi yfirlýsinga ríkisstjórnar Íslands að þeir væru á móti þessum múr og þeirri aðskilnaðarstefnu sem með byggingu hans birtist. Það er alveg rétt, við höfum borið gæfu til þess, Íslendingar, að það ríkir þokkalegur einhugur um þetta. Samt sem áður verð ég að segja að ég er ekki sammála því viðhorfi sem mér fannst birtast hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að tillagan væri þar af leiðandi óþörf. Hún er það síður en svo. Það skiptir miklu máli að ekki bara framkvæmdarvaldið tali með þessum hætti. Það skiptir máli gagnvart þeim sem eru að fylgjast með alþjóðlegri þróun, og ekki síst þessum tveimur ríkjum, að Alþingi Íslendinga tali. Það skiptir máli að fram komi að einhugur ríkir meðal allra flokka á íslenska þjóðþinginu gegn byggingu múrsins. Þess vegna er nauðsynlegt að tillaga af þessu tagi fái þann framgang sem hún á skilið.

Herra forseti. Samf. hefur á síðustu árum aftur og aftur tekið upp málstað Palestínumanna. Við höfum í utandagskrárumræðum, með fyrirspurnum og líka með þátttöku í starfi á alþjóðavettvangi tekið upp málstað Palestínu og við höfum lýst því yfir að það verði að verja rétt þeirra til sjálfsákvörðunar og styðja þá í viðleitni þeirra til þess að fá að stofna frjálst og fullvalda ríki.

Á þinginu 2002 lögðum við fram sérstaka tillögu, virðulegi forseti, sem laut að ályktun þingsins um deilu Ísraels og Palestínumanna. Frumkvæði Samf. sem birtist í þeirri tillögu og reyndar með margvíslegum hætti það ár tel ég að hafi átt ríkan þátt í að ná upp þeirri miklu samúð sem íslenska þjóðin hefur sýnt málstað palestínsku þjóðarinnar. Ég held að þar hafi ekki síst skipt máli að Samf. fékk fyrir atbeina Sveins Rúnars Haukssonar, sem var einmitt nefndur af hv. flm. sem einn af hinum ódeigu baráttumönnum fyrir málstað Palestínumanna, hingað til lands einn af forvígismönnum Palestínumanna, Mustafa Barghouthi. Sá kom hingað, ávarpaði landsfund Samf. og lét mjög að sér kveða í fjölmiðlum á þeim tíma. Mig langar, virðulegi forseti, af því tilefni, að endurtaka þau orð sem húmanistinn Mustafa Barghouthi lét falla í ávarpi sínu til landsfundar flokksins og voru svo, með leyfi forseta:

,,Ofbeldið og öryggisleysið eru einkennin en hernámið er orsökin.``

Við þurfum að uppræta hernámið og það skiptir máli að rödd okkar og atbeini hvarvetna á alþjóðavettvangi styðji málstað þeirra sem eru fórnarlömb hernámsins.

Í dag hafa Ísraelsmenn hlutað niður það svæði sem Palestínumenn með réttu hafa yfir að ráða. Þeir hafa bútað það niður í 220 einingar sem hafa nánast engin tengsl sín í milli. Þeir hafa komið í veg fyrir að hægt sé að halda uppi fjarskiptum á milli þessara litlu svæða. Þeir hafa komið í veg fyrir að fólk geti sótt vinnu og það hefur harðnað enn á þeim dal með múrnum sem nú er verið að reisa. Það liggur fyrir að 70% af palestínsku þjóðinni búa ekki við viðunandi heilsugæslu. 60% þjóðarinnar eru undir skilgreindum fátæktarmörkum á alþjóðavísu. Þetta eru þau skilyrði sem Palestínumenn búa við og við berum með vissum hætti ábyrgð á kjörum þeirra og framtíð. Þess vegna skiptir svo miklu máli að Alþingi láti til sín heyra.

Alþingi samþykkti þáltill. sem Samf. lagði fram 2002 en hún hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi lýsir áhyggjum sínum af því ófriðarástandi sem nú ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og fordæmir það ofbeldi sem þar á sér stað. Alþingi leggur áherslu á að öryggi óbreyttra borgara sé tryggt og alþjóðleg mannréttindi virt og telur brýnt að send verði eftirlitsnefnd frá Sameinuðu þjóðunum á svæðið í samræmi við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 1405(2002).

Alþingi krefst þess að öllum ofbeldisverkum linni, þar á meðal sjálfsmorðsárásum og beitingu hervalds, að Ísrael dragi herlið sitt til baka frá sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna, að deiluaðilar semji um vopnahlé og að hafnar verði friðarviðræður um sjálfstætt ríki Palestínumanna og öryggi Ísraelsríkis innan alþjóðlegra viðurkenndra landamæra í samræmi við nýjustu ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.``

Virðulegi forseti. Þessi þáltill. sem hér var samþykkt árið 2002 birti skýran, ótvíræðan og einhuga vilja Alþingis. Ég tel nauðsynlegt að í því máli sem liggur fyrir birtist sami vilji með sama hætti. Þess vegna hvet ég til þess að þessi þáltill. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs verði samþykkt.