Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 12:07:04 (4413)

2004-02-19 12:07:04# 130. lþ. 68.1 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[12:07]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum. Frv. er unnið í umhvrn. og byggir á tillögum sem ráðuneytinu bárust frá Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun og nefnd sem m.a. var falið það hlutverk að fylgjast með framkvæmd hreindýraveiða samkvæmt breyttu kerfi sem komið var á árið 2001. Haft var samráð við Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skotveiðifélag Íslands og Fuglaverndarfélag Íslands við gerð frv.

Virðulegi forseti. Ég mun nú gera grein fyrir helstu breytingum og nýmælum sem lögð eru til í frv.

Lagt er til það nýmæli í 10. gr. frv. að skýrt verði kveðið á um verndun varpstaða arna. Frv. er ætlað að bregðast við þeirri óvissu sem skapaðist í kjölfar dóms varðandi verndun varpstaða arna. Þann 3. apríl 2003 felldi Hæstiréttur Íslands dóm þar sem hinn ákærði var sýknaður af ákæru um að hafa raskað hreiðurstæði arna í því skyni að verjast ágangi þeirra.

Ernir helga sér varpstæði sem oftast eru nefnd óðul eða arnarsetur. Ernirnir verpa þar kynslóð fram af kynslóð og þá yfirleitt á sömu stöðunum. Sum þessara arnarsetra hafa verið í samfelldri ábúð eins langt og heimildir ná. Mikilvægt er því að halda hlífiskildi yfir þessum stöðum sem og þeim gömlu setrum sem ernir hafa yfirgefið en gætu síðar tekið sér bólfestu á með stækkandi stofni. Viðkoma arna er víðast hvar lítil samanborið við aðrar fuglategundir en þeir bæta sér það upp að hluta með langlífi. Þess vegna eru arnarstofnar afar viðkvæmir fyrir ásókn og truflunum eða öðru því sem hefur bein áhrif á lífslíkur vaxinna fugla. Þá eru ernir afar heimakærir og halda tryggð við sömu varpstaði kynslóð eftir kynslóð. Því er mikilvægt að vernda slíka staði og nánasta umhverfi fyrir hvers kyns röskun og truflunum til að standa vörð um viðkvæman og lítinn stofn. Lagt er til að umgangur sé bannaður nær varpstöðum arna en 500 m á varptíma. Hliðstæðar reglur og verndarmörk gilda í nágrannalöndum okkar um varpstæði sjaldgæfra tegunda sem eru viðkvæmar fyrir truflunum.

Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að gert er ráð fyrir að landeigendur eða umráðamenn lands geti komið nær hreiðrum ef brýna nauðsyn ber til vegna lögmætra nytja, t.d. æðarvarps eða sjávarnytja. Ráðherra getur samkvæmt frv. veitt undanþágu fyrir fjarlægðartakmörkuninni í sérstökum tilvikum. Einnig er lagt til að óheimilt sé að hrófla við hreiðurstæðum arna og svæði sem takmarkast af 100 metra hringmáli umhverfis, hvort sem er á varptíma eða utan hans. Þannig verður óheimilt að koma fyrir búnaði í þeim tilgangi að fæla fugla frá hreiðurstæðum eða til að reyna að hindra þá í að verpa. Ákvæðinu er ætlað að tryggja að ekki megi raska fornum arnarsetrum sem ernir gætu tekið bólfestu á eftir því sem stofninn stækkar. Heimilt verður þó að veita undanþágu frá þessu ákvæði. Líklegt er að gömul hreiðurstæði verði ekki nýtt aftur vegna breyttra aðstæðna þar sem svo háttar til og svo sem vegna þess að vegur hefur verið lagður nærri fornu arnarsetri og því ljóst að örninn helgar sér þar ekki varpsvæði.

Lagt er til að bætt verði nýjum kafla við lögin um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, VII. kafla sem ber heitið Sértæk friðun. Kaflanum er ætlað að hýsa ákvæði er varða frekari vernd tegunda sem eru alfriðaðar samkvæmt lögunum.

Segja má að hér sé stigið fyrsta skrefið í átt að frekari verndun friðaðra tegunda sem eiga sérstaklega erfitt uppdráttar og komi sem viðbót við almenn friðlýsingarákvæði.

Í nýrri 18. gr. er lagt til að ráðherra verði veitt heimild, að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, til að kveða á um aukna vernd friðaðra stofna villtra fugla og spendýra sem eiga erfitt uppdráttar, sé brýn ástæða til. Mikilvægt er að geta þess að ráðherra ber að hafa samráð við hlutaðeigandi sveitarfélög áður en slík ákvörðun er tekin. Hér er einkum þó verið að horfa til sjaldgæfra fuglategunda ef skyndilegar breytingar verða á stofnstærð þeirra.

Þá eru lagðar til breytingar í 2. og 3. gr. frv. til að skýra frekar stjórnsýsluleg skil milli Umhverfisstofnunar, sem er stjórnsýslustofnun, og Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem er rannsóknastofnun. Mikilvægt þykir að skýrt sé að það sé annars vegar hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands að bera ábyrgð á því að meta stofnstærð og hvort viðkomandi stofn þolir veiðar, hins vegar sé það Umhverfisstofnunar, eftir að ráðherra hefur tekið ákvörðun í málinu um að stofn þoli veiðar, að útfæra tillögur um nauðsynlega veiðistjórn og hvernig veiðum skuli háttað. Tillögunni er m.a. ætlað að ná betur því markmiði sem stefnt var að með stofnun Umhverfisstofnunar að skilja milli rannsókna og stjórnsýslu að svo miklu leyti sem unnt er.

Í 7. gr. frv. er lagt til að ekki þurfi veiðikort til að stunda veiðar á mink. Ekki þarf að kaupa slík veiðikort ef veiða á mýs og rottur en minkar, eins og rottur og húsamýs, svo og hagamýs í húsum inni, eru ekki friðaðir samkvæmt gildandi lögum.

Lagt er til í b-lið 5. gr. frv. að ráðherra sé heimilt að aflétta friðun á stofnum eða tegundum villtra dýra sem flust hafa til Íslands af mannavöldum með það að markmiði að halda stofnum niðri en ekki til að útrýma þeim. Lagt er til að þessi heimild verði tímabundin og/eða bundin við ákveðin svæði. Samkvæmt núgildandi lögum er ráðherra einungis heimilt að beita sér fyrir útrýmingu stofns eða tegunda dýra sem flust hafa til Íslands af mannavöldum en heimild skortir til að halda stofnum niðri. Þessar tegundir dýra eða dýrastofna verða því ekki veiddar nema í útrýmingarskyni samkvæmt núgildandi lögum. Helsta ástæðan fyrir þessu ákvæði er fjölgun kanínustofnsins, m.a. í Reykjavík og Vestmannaeyjum þar sem kanínur valda umtalsverðu tjóni, en ekki þykir ástæða til að útrýma þessum stofni, t.d. í Reykjavík, þótt nauðsynlegt sé hins vegar að halda stofninum niðri.

Lagðar eru til breytingar í 8. gr. frv. er varða framkvæmd hreindýraveiða og að svokallað leiðsögumannakerfi verði lögfest. Breytingar þessar eru byggðar á tillögum nefndar sem starfaði frá árinu 1999 til 2003 og var m.a. falið að fylgjast með framkvæmd hreindýraveiða samkvæmt breyttu kerfi sem komið var á árið 2001. Helsta breytingin sem lögð er til er að fest verði í sessi nýtt kerfi um framkvæmd hreindýraveiða. Þetta nýja kerfi gerir greinarmun annars vegar á leiðsögn með hreindýraveiðum og hins vegar eftirliti með veiðunum. Lagt er til að kveðið sé á um starfsemi leiðsögumanna með hreindýraveiðum í lögunum, í fyrsta lagi að enginn geti stundað hreindýraveiðar nema undir slíkri leiðsögn og í öðru lagi að leiðsögumenn þurfi að fá leyfi Umhverfisstofnunar til að fá að starfa.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir meginþætti frv. til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum, og legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhvn.