Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 12:15:30 (4415)

2004-02-19 12:15:30# 130. lþ. 68.1 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[12:15]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég er í grófum dráttum sammála því frv. sem hér er lagt fram en sé ástæðu til að vekja máls á örfáum atriðum.

Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því að mjög hefur dregið úr fjárveitingum til þess að útrýma mink og ref. Ég tel raunar, eins og fjárveitingum er háttað nú, að þær séu ófullnægjandi og nauðsynlegt sé að beita sér fyrir því að í fjárlögum næsta árs verði betur tekið á þessum málum. Ég hygg að það sé samdóma álit flestra að bæði refum og minkum hafi fjölgað mjög mikið upp á síðkastið, og í ákveðnum héruðum, byggðarlögum og svæðum stórsér á fuglalífi af þeim sökum að ofvöxtur hefur hlaupið í stofn þessara tveggja rándýra.

Eins og fram kemur í frv. er gert ráð fyrir sérstökum aðgerðum til að eyða þeim dýrum sem innflutt hafa verið og eru aðkomudýr hér á landi. Auðvitað fellur minkurinn undir það og ástæðulaust er að setja þann fyrirvara að ekki megi útrýma honum. Ég held að mikil bót væri að því ef hægt yrði að útrýma minknum, satt að segja. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki standi til að taka fastar og betur á í þeim málum.

Í annan stað er ég auðvitað samþykkur því að gerðar séu ráðstafanir til að friða betur en nú er gert hreiðurstæði arna. Þeim hefur verið að fjölga upp á síðkastið. Eftir sem áður liggur það fyrir að umferð veldur óróa í æðarvarpi og andavarpi. Þess vegna hefur það komið upp af og til að freisting hefur verið til þess að stugga við örninni en ég vona að þær tillögur sem hér liggja fyrir séu fullnægjandi til að bæta úr því.

Það vekur athygli mína að í a-lið 8. gr. er gert ráð fyrir að ekki skuli lengur skylt að Umhverfisstofnun ráði eftirlitsmann til að sjá um eftirlit með hreindýrum. Ég hlýt að spyrja hvers vegna þetta sé nauðsynlegt. Ég hygg að þvert á móti sé eðlilegt að halda þeirri stöðu og jafnframt að Umhverfisstofnun hafi þær rannsóknir sem tengjast hreindýrum og náttúru norðan jökla. Þær eiga auðvitað að vera í höndum heimamanna, og þá er ég ekki einungis að tala um Egilsstaði, ég er líka að tala um Náttúrurannsóknastöðina í Mývatnssveit.

Mér finnst að með þessu sé enn eina ferðina verið að draga úr gildi starfa úti á landi sem lúta að því að hafa eftirlit með náttúrunni. Meðal annars tillögur eins og þessar draga úr trú manna á að það sé skynsamlegt að stofna þjóðgarða, draga úr trú manna á að yfirvöld umhverfismála vilji leggja sig fram um að skilja heimamenn og þau lögmál sem í hverju héraði hljóta að liggja til grundvallar því að menn geti fallist á friðun lands og náttúru.

Sem dæmi get ég nefnt að það var lengi --- mér er sagt að svo sé ekki lengur --- bannað að drepa bæði mink og ref í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum. Ég vona að svo sé ekki lengur, mér er sagt að Umhverfisstofnun eða Náttúrufræðistofnun geri ráðstafanir til að drepa mink og tófu þar. Eftir sem áður er ekki myndarlegar staðið að því verki en svo að stöðugur straumur er þaðan af þeim dýrum sem aftur þýðir að rétt er að taka miklu fastar á aðgerðum sem miða að því að útrýma mink og ref, sérstaklega mink, og er ég ekki viss um að Umhverfisstofnun eða Náttúrufræðistofnun sé góður ráðgjafi þegar að því kemur, satt að segja. Þær tillögur sem ég hef séð úr þeim stofnunum hafa ekki verið sannfærandi, og ég man ekki eftir því að þær stofnanir hafi haft frumkvæði að umræðum um að nauðsyn beri til þess að fækka mink eða ref. Nú má vera að slíkar tillögur frá Umhverfisstofnun eða Náttúrufræðistofnun hafi farið fram hjá mér en ég man ekki til þess að þær stofnanir hafi haft frumkvæði að slíkum tillögum.

Ég vil síðan, herra forseti, beina því til hv. umhvn., sem fær þetta mál til meðferðar, hvort ekki sé rétt að taka inn í lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum ákvæði þess efnis að allar andaveiðar séu bannaðar á Íslandi. Ég veit með vissu að nokkur brögð eru að því að friðaðar endur séu skotnar --- fyrir misskilning vonandi, ekki af ráðnum hug --- og í mínum huga er líka grænhöfðinn eða stokköndin það mikill vinur, a.m.k. minn, að ég get ekki hugsað mér að veiðar á þeirri fuglategund haldi áfram. Þess vegna vil ég, herra forseti, beina því til hv. umhvn. að athuga hvort ekki sé rétt við meðferð málsins að athuga um það að friðun á öndum verði tekin inn í frv.