Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 12:25:06 (4417)

2004-02-19 12:25:06# 130. lþ. 68.1 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[12:25]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Af tillögum umhvrh. til fjmrh. um það hvernig því fé skuli varið sem fellur til umhvrn. sést hvaða áhuga hann hefur á eyðingu minks og refs. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að eins og frv. leit út á sl. hausti endurspeglaði það áhuga ráðuneytisins á þessum sérstaka þætti í fjárlögum.

Ég er á hinn bóginn algjörlega sammála hæstv. ráðherra um það að fjárln. hefði átt að leggja fram tillögur um að auka þetta fé. Við vitum vel að ýmsir fámennir hreppar bera ábyrgð á vargeyðingu á ýmsum þeim svæðum sem okkur eru hvað dýrmætust. Við vitum líka að slíkir hreppar í einstökum tilvikum hafa ekki treyst sér til að halda eyðingu þessara rándýra áfram vegna þess að það hefur orðið baggi á viðkomandi sveitarfélagi. Ég er þeirrar skoðunar að ef við tökum t.d. Mývatnssvæðið, Melrakkasléttu og fleiri svæði sem hægt er að benda á víðs vegar um landið eigi það ekki að vera undir sveitarfélaginu komið hvort mink verði eytt heldur eigi umhvrn. að hafa stofnanir sem fylgist með því.

Um eftirlitsmann með hreindýraveiðum vil ég einungis segja að ef allt á að vera óbreytt er ástæðulaust að breyta lögunum.