Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 12:28:56 (4419)

2004-02-19 12:28:56# 130. lþ. 68.1 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[12:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Það voru út af fyrir sig áhugaverð orðaskipti hér síðast og ég vil byrja á því að hrósa hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir þann hug sem að baki liggur tillögu hans um að alfriða endur og þann kjark sem hv. þm. sýnir með því að gera þetta að tillögu sinni. Ég hygg að skotveiðimenn væru líklegir til að yggla nokkuð brún, ekki síst í kjölfar á friðun rjúpunnar, ef á eftir sigldi alfriðun á öllum öndum. Ég er a.m.k. sammála hv. þm. Halldóri Blöndal að því leyti að það er full ástæða til að fara yfir þær reglur sem gilda um andaveiðar og það er ástæða til að hafa áhyggjur af sumum sjaldgæfari tegundum eða veikari stofnum á því sviði. Auðvitað er það nokkuð vandasamt ef leyfð er veiði á sumum tegundum en öðrum ekki og menn kannski misjafnlega glöggir á því hvaða reglur gilda í hverju einu tilviki.

Á Íslandi eru þó nokkuð margir afar sjaldgæfir andastofnar. Ísland hýsir t.d. eitt allra Evrópulanda nokkra stofna sem annars eru einungis í Norður-Ameríku og þannig mætti áfram telja þannig að það er út af fyrir sig fullgilt efni til að huga að þeim málum sérstaklega.

[12:30]

Í öðru lagi vil ég taka undir það sem hv. 2. þm. Norðaust. nefndi, um eyðingu refa og minka. Út af fyrir sig er það með miklum endemum að sá málaflokkur skuli þurfa að vera þvílíkt deiluefni og bitbein. Manni finnst að það ætti að vera hægt að koma því í skikkanlegan farveg í góðu samstarfi þeirra stofnana sem í hlut eiga, sveitarfélaga og annarra, og auðvitað fjárveitingavaldsins. En staðreyndin er að fá mál eru ríkisvaldinu meira til skammar á síðustu 10--15 árum en það hvernig farið hefur verið með þennan málaflokk. Það segi ég og þykist þekkja nokkuð til.

Öllum er ljóst að það er algerlega fráleitt ástand að velta skyldunni til að halda niðri þessum meindýrum, ef sú er stefnan, yfir á nokkur fámennustu og fátækustu sveitarfélög í landinu, skepnum sem virða engin hreppamörk. Ég held að minkurinn hafi alls ekki hugmynd um að það séu á kortum til einhverjar línur sem eiga að heita sveitarfélagamörk. Að gera þetta með þeim hætti sem fjárveitingavaldið hefur gert á undanförnum árum, að smáskera þetta niður og velta ábyrgðinni yfir á sveitarfélög sem koma litlum vörnum við, bitnar þyngst á þeim sem síst skyldi og er neðan við allar hellur. Það er ekki eins og ríkisbúskapurinn fari á hliðina þó að þarna væri betur staðið að málum. Hér erum við að tala um útgjöld sem hlaupa á einhverjum fáeinum hundruðum milljóna í heild sinni.

Ég er ekki að segja að sveitarfélögin geti ekki verið eðlilegir samstarfsaðilar ríkisvaldsins um þetta. Út af fyrir sig mælir margt með því að sú framkvæmd sem var við lýði fyrir allmörgum árum hafi ekki verið óskynsamleg. Þá áttu báðir aðilar hagsmuna að gæta af því að gæta aðhalds og leita hagkvæmustu lausna. Eins og þetta er núna hvílir lagaskyldan á sveitarfélögunum. Ráðuneytið og stofnanir þess bera fyrir sig fjárlagarammann og tilkynna sveitarfélögunum að í staðinn fyrir að greiða 50% geti þau ekki greitt nema 30%. Þetta er samyrkjubúskapur sem gengur ekki upp, að annar fái mykjuna og hinn mjólkina. Það er einfaldlega þannig.

Ríkið gengur á þetta lag á fjölmörgum fleiri sviðum. Það ber fyrir sig norm varðandi framkvæmdakostnað þar sem ríki og sveitarfélög eiga að standa sameiginlega að byggingum. Það hefur normin svo þröng og svo naum að þó að ríkið eigi samkvæmt lögum að borga 60% af byggingarkostnaði framhaldsskóla þá hrökkva normin ekki fyrir nema 30% eða 40% og við það situr af hálfu ríkisvaldsins. Ábyrgðin á þá að vera sveitarfélaganna.

Ég hef miklar efasemdir um að þetta verkefni eigi að vera vistað hjá sveitarfélögunum. Nær væri að samið yrði við þau, gerðir þjónustusamningar við sveitarfélögin eða samtök þeirra á stærri svæðum, t.d. við héraðsnefndir um að sjá um þetta í umboði ríkisins. Þá yrðu gerðir verktaka- eða þjónustusamningar um það. Að sjálfsögðu er enginn að tala um að menn eigi að hverfa aftur til fyrirkomulags sem þýðir að menn geti skrifað út reikninga að eigin vild. Enda er það ekki svo, langt frá því. Ég þykist geta sagt til um að það er enginn sérstakur gróðavegur að annast um þessa starfsemi, hvorki minka- eða refaeyðingu. Þvert á móti líta menn á þetta miklu nær því að vera þegnskylduvinnu. Útkoman er auðvitað sú að þessu er mjög misjafnlega vel sinnt og þess sér orðið mjög vel stað, t.d. í mófuglalífi og því hvernig silungar, sérstaklega í lækjum og minni ám og vötnum, komast af. Glöggir menn geta nokkuð áttað sig á því með því að ganga um landið að sumarlagi á hvaða svæðum er sinnt sæmilega eyðingu á ref og mink og hvar ekki. Það segir býsna fljótt til sín.

Því miður þýðir ekki annað en horfast í augu við að náttúran, sérstaklega mófuglalíf og lífríki í minni vatnakerfum, er ekki svipur hjá sjón ef þessum meindýrum er ekki haldið niðri. Það verður einfaldlega að horfast í augu við það því miður. Enda eru þau framandi í íslenska vistkerfinu, a.m.k. minkurinn.

Um frv. þetta ætla ég ekki að hafa mörg orð að öðru leyti. Ég vil þó aðeins spyrja út í b-lið 5. gr. Mér er ekki alveg ljóst hver hugsunin er þar, að gera þennan skýra greinarmun á tegundum villtra dýra sem flust hafa til Íslands af manna völdum varðandi það að halda stofnum niðri. Það kann að vera að þessi skilgreining sé ágæt og haldi eins og er en það er ekki endilega sjálfgefið að svo sé. Auðvitað geta slæðst af náttúrlegum völdum einhver dýr í lífríkið sem gætu átt eftir að reynast eins miklir skaðvaldar og þau sem koma hingað af mannavöldum. Ljóst er að minkurinn var fluttur hingað og einhvern veginn hafa kanínur sem orðnar eru hálfvilltar komist til landsins. En þetta er a.m.k. ekki mjög líffræðileg skilgreining, að láta flokkunina ráðast af flutningsmátanum. Það fer allt eftir því hvort kvikindin komi hingað með flugi eða öðruvísi hvort heimilt er að halda stofninum niðri. Mér fyndist að menn ættu að fara yfir það hvort ekki væri hægt að notast við náttúrlegri skilgreiningu, einhverja líffræðilegri skilgreiningu. Þetta ætti að vera byggt á mati til þess bærra aðila á því hvort viðkomandi tegund í íslenska lífríkinu er líkleg til að valda þvílíkum usla að menn verði ásáttir um að reyna að halda því tjóni niðri.

Ef ég skil rétt, samanber umsögn um 5. gr., er verið að opna fyrir aðgerðir til að halda viðkomandi stofni niðri í staðinn fyrir þau ákvæði sem nú eru, að þetta sé bara annaðhvort eða. Annaðhvort sé ekki snert við dýrinu eða markmiðið að útrýma tegundinni. Ég fellst á að það geti verið rétt að hafa opinn milliveginn, halda stofnstærðinni niðri eins og auðvitað er gert, t.d. með hreindýraveiðum o.s.frv. En þessi skilgreining vakti athygli mína, þ.e. að láta ferðamátann ráða því hvort heimildirnar taki til viðkomandi tegundar eða ekki.

Ég tek undir að það er full ástæða til að styrkja lagastöðuna hvað varðar nauðsynlega vernd fyrir arnarstofninn og arnarvarp. Ég skil það svo að í kjölfar Hæstaréttardóms sé þarna verið að gera það. En í b-lið 10. gr. frv., 19. gr. laganna, er vikið að skrá yfir hreiðurstæði arna. Þarna segir að óheimilt sé að hrófla við hreiðrum og hreiðurstæðum arna sem takmarkast af 100 m hringmáli umhverfis, hvort sem er á varptíma eða utan hans. Í umsögn um þessa grein þóttist ég sjá --- það kemur kannski fram í lagatextanum sjálfum --- að um sé að ræða öll arnarhreiður sem nokkurn tíma er vitað til að örn hafi verpt í og er það auðvitað um allt land. Um þetta er vonandi verið að vinna skrá, þ.e. Náttúrufræðistofnun á að halda skrá. Ég vil spyrja hvar sú skrá sé á vegi stödd. Er hún til þannig að hún taki til landsins alls eða tekur núverandi skrá fyrst og fremst til þess hluta landsins þar sem arnarvarp hefur verið á síðustu áratugum. Þetta verður auðvitað hið merkasta plagg og er mikil fróðleikssöfnun og ekki seinna vænna, ef ekki er þegar búið að vinna þetta, en að vinda bráðan bug að því að safna þessum upplýsingum í byggðarlögum þar sem vitneskjan er væntanlega fyrst og fremst geymd í minni eldri kynslóðarinnar.

Að síðustu langar mig til að spyrja um 3. gr. frv. Þar er vikið að hlutverki Náttúrufræðistofnunar Íslands hvað varðar rannsóknir á stofnum villtra fugla og spendýra. Eins og þar segir skal stofnunin meta ástand þeirra og gera í framhaldi tillögur til umhvrh. um vernd og hvort viðkomandi stofn þoli veiðar, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Um þetta er allt gott að segja. En upp fyrir mér rifjast m.a. umræður um það hvort hæstv. umhvrh. hefði borið að taka meira mark á Náttúrufræðistofnun en veiðistjóra í tilteknu máli fyrir nokkrum mánuðum. Ég viðurkenni fúslega að það má kalla það leti að ég hef ekki haft tíma til að lesa þetta nákvæmlega saman við gildandi lög en mig langar að spyrja: Hvað er að breytast þarna? Af umsögn um greinina verður það ekki ráðið. Þar segir:

,,Í greininni er lagt til að kveðið verði á með skýrum hætti að Náttúrufræðistofnun Íslands beri að stunda rannsóknir á stofnum villtra fugla og spendýra.``

Gott og vel en var það ekki svo? Hvað er að breytast? Ég leyfi mér í vinsemd að koma gamalkunnugri ábendingu á framfæri sem greinilega þarf að dreifa vel í stjórnarráðinu þar sem oft er verið að undirbúa frumvörp: Umsagnir um að lagagreinar eiga ekki að vera svona. Þær eiga að útskýra í hverju breytingin er fólgin. Ef það er ekki svo þá þurfa menn að liggja með lagatextann fyrir framan sig og lúslesa saman hvert einasta atriði. Ég er engu nær af lestri frumvarpsgreinarinnar og umsagnarinnar um hana um hvað er að breytast. Að hvaða leyti er staða Náttúrufræðistofnunar Íslands að verða skýrari og afdráttarlausari hvað varðar skylduna til að stunda rannsóknir á stofnum villtra fugla og spendýra, meta ástand þeirra og gera tillögur til ráðherra um vernd og veiðiþol o.s.frv.? Ég er algerlega sammála því að þannig eigi þetta að vera. Ég held að því sé best fyrir komið hjá Náttúrufræðistofnun og það getur varla verið deiluefni. Þar á þetta viðfangsefni heima. En ég vildi gjarnan verða einhverju fróðari um hver óvissan hefur verið. Að hvaða leyti verður þetta skýrara en áður var? Er sátt um landamærin á milli þeirra sem í hlut gætu átt.