Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 12:53:40 (4422)

2004-02-19 12:53:40# 130. lþ. 68.1 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[12:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Reyndar hafði góðhjartaður kollegi gaukað að mér lögunum og ég var búinn að lesa þetta aðeins saman undir umræðunum og var að ráða fram úr því að þetta væri nokkurn veginn eins og hæstv. ráðherra síðan upplýsti hér, að breytingin gengur í raun og veru út á það að styrkja og gera afdráttarlausari stöðu Náttúrufræðistofnunar Íslands og taka af skarið um að það er Náttúrufræðistofnun Íslands sem ekki einasta rannsakar stofna villtra fugla og spendýra, eins og staðið hefur í 1. mgr. 4. gr. laganna, heldur og gerir á grundvelli slíkra rannsókna tillögur til umhvrh. um vernd og hvort viðkomandi stofn þoli veiðar. Með öðrum orðum: Það er þá afdráttarlaust að það er hlutverk Náttúrufræðistofnunar en ekki Umhverfisstofnunar, ekki veiðistjóraembættisins t.d., að vinna þessa vinnu upp í hendurnar á ráðherra áður en ráðherra tekur ákvarðanir sínar um t.d. aðgerðir til verndar rjúpnastofninum. Að gefnu tilefni hefur greinilega verið talið nauðsynlegt að gera þetta afdráttarlaust og skýrt. Ég er út af fyrir sig efnislega sammála þessum frágangi málsins og tel hann vera réttan en mér finnst að þetta hefði átt að skýra betur í umsögn með greininni. Það á ekki að vera neitt feimnismál hvað þarna er á ferðinni og það hvarflar ekki að mér eitt andartak að það hafi átt að læða þessu hér með án þess að það vekti mikla athygli að þarna væri verið að skerpa þessi mörk. Það er augljóslega það sem verið er að gera og það er vel.