Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 12:55:16 (4423)

2004-02-19 12:55:16# 130. lþ. 68.1 fundur 594. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (ernir, hreindýr, stjórnsýsla o.fl.) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[12:55]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er réttur skilningur sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að verið er að skerpa á þessum mörkum og það er alls ekkert feimnismál að tala um það að það þarf að vera mjög skýrt þegar svona viðkvæmar ákvarðanir eru teknar hvernig fara ber með þær. Það kemur fram í greinargerðinni í hvaða tímaferli þessar ákvarðanir eru teknar, þ.e. að Náttúrufræðistofnun Íslands sér um vísindahlutann og leggur til við ráðherra hvort stofn þoli veiðar. Síðan er það ráðherra sem tekur ákvörðun um hvort ekki beri að aflétta friðun, hvort hægt sé að veiða eða ekki. Loks er það Umhverfisstofnun sem útfærir veiðarnar sem mega fara fram.

Vegna þess að embættisheitið veiðistjóri kemur svo oft fyrir í umræðunni vil ég taka fram að það embætti er ekki lengur til. Veiðistjóraembættið er að sjálfsögðu ekki lengur til eftir að það var lagt niður, það fór inn í Umhverfisstofnun, en viðkomandi aðili er yfirmaður veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar.