Breyting á IX. og XIX. viðauka við EES-samninginn

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 12:58:38 (4425)

2004-02-19 12:58:38# 130. lþ. 68.6 fundur 360. mál: #A breyting á IX. og XIX. viðauka við EES-samninginn# (fjarsala á fjármálaþjónustu) þál., Frsm. DJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[12:58]

Frsm. utanrmn. (Dagný Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. hv. utanrmn. um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2003, um breytingu á IX. viðauka og XIX. viðauka við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti.

Það er ljóst að Sala á fjármálaþjónustu er undanþegin gildissviði laga nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölu, en markmiðið nú er að samræma reglur á Evrópska efnahagssvæðinu og tryggja neytendavernd við fjarsölu á fjármálaþjónustu. Er tilskipuninni ætlað að styrkja réttarstöðu neytenda, m.a. með því að kveða á um rétt neytenda til að falla frá fjarsölusamningi um kaup á fjármálaþjónustu. Innleiða þarf efni tilskipunarinnar fyrir 15. október 2004 en samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðuneytinu verður frumvarp líklega ekki lagt fram fyrr en á haustþingi. Utanríkismálanefnd telur rétt að vekja athygli á að verulegar líkur eru á að ekki verði staðið við innleiðingarfrestinn af þeim sökum.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.