Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 13:41:52 (4428)

2004-02-19 13:41:52# 130. lþ. 68.11 fundur 260. mál: #A aðskilnaðarmúrinn í Palestínu# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[13:41]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég lýsi yfir stuðningi við þá tillögu sem við erum að ræða og efni hennar í þremur liðum. Ég tel að eins og textinn er væri okkur sæmd af því að samþykkja hana á Alþingi. Ég vil leggja það til málsins að lýsa yfir stuðningi við tillöguna eins og hún birtist. Það má minna á að múrar hafa á öllum tímum reynst misheppnuð aðferð til að leysa deilur þjóða. Er þar nærtækast að minnast Berlínarmúrsins og múra sem reistir voru utan um Austur-Evrópulönd á árum áður. Múrarnir hafa ekki leyst deilur þjóða og munu ekki gera það milli Ísraelsmanna og Palestínumanna, ekki síst þar sem Ísraelsmenn eru að færa landamærin til og stunda landvinninga á hendur Palestínumönnum.

Ég lýsi því yfir að ég styð þetta mál og vonast til að þingmenn Frjálslynda flokksins geri það. Ég tel að okkur væri fullur sómi af því á Alþingi að samþykkja þessa þáltill. með tilliti til þeirrar stefnu sem hér var mótuð árið 1989. Ég ítreka stuðning minn við málið.