Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 14:08:40 (4433)

2004-02-19 14:08:40# 130. lþ. 68.2 fundur 479. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Menn hafa farið að ræða hér alvarleg mál í tengslum við þessa tillögu um staðfestingu á þegar framkvæmdum samningum frá síðasta ári um síldarsamskiptin við Norðmenn og Færeyinga. Það er náttúrlega eitt og sér hvernig það hefur gengið til, að leggja fram til málamynda til staðfestingar á Alþingi samninga sem hafa runnið sitt skeið á enda í raun og veru. Ég tek undir það sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi, það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af framhaldinu og hvernig horfir í samskiptum með samninga um nýtingu á stofninum. Kannski eru það ekki miklar fréttir og a.m.k. eru engar góðar af því að segja, eins og kom fram í svörum hæstv. utanrrh.

Það er engu að síður þannig að þegar samningarnir voru gerðir á sínum tíma urðu margir fyrir miklum vonbrigðum með þá hlutdeild sem Ísland fékk, sérstaklega ef það var skoðað í sögulegu ljósi. Menn bundu þá, og binda enn, vonir við að stofninn tæki meira upp sína fyrri og vonandi náttúrulegu hegðun, að ganga meira inn í íslenska lögsögu og dvelja hér stærri hluta ársins. Bæði í því ljósi og í ljósi þess hvernig veiðum var háttað þegar mest var umleikis hér í nýtingu á þessum stofni var hlutur Íslands iðulega á milli 30% og 40% af heildarveiðum og undir það síðasta dvaldi stofninn hér stóran hluta ársins, sérstaklega eftir að hann fór að hluta til að hafa vetursetu austur af landinu.

Það er auðvitað ekki annað en að taka því að svona gangi þessir hlutir fyrir sig, enn þá því miður. Menn verða að halda áfram að reyna að leita að einhverjum vitrænum niðurstöðum því að í húfi er skynsamleg stjórn á nýtingunni og að stofninn byggist upp. Það er ákaflega líklegt, finnst mönnum, að með því að aðstæður í hafinu líkjast nú meir og meir því sem var einmitt á þessum árum, frá því um og upp úr 1920 og fram á miðjan sjöunda áratuginn, taki stofninn upp hegðun sem líkist því sem þá var. Það er eðlilegt, a.m.k. leyfilegt að draga þá ályktun að á því séu talsverðar líkur að sambærilegar aðstæður í hafinu hvað varðar hitastig og átuskilyrði leiði aftur til sambærilegrar hegðunar stofnsins sem auðvitað mundi þá styrkja verulega stöðu Íslands.

Menn áskildu sér alltaf rétt á leiðréttingu á prósentuhlutföllum ef efni væru til en auðvitað verður ekki léttara að hreyfa þeim málum eftir því sem lengur hefur verið notast við formúlu sem í grófum dráttum er frá upphaflegu samningunum á árunum 1996 eða 1997, eða hvenær sem fyrst samdist. Kröfur Norðmanna að undanförnu benda náttúrlega í þá átt að þeir telji sig hafa stöðu til að gera kröfur um stærri hlutdeild, sem sagt þróun alveg í hina áttina.

Varðandi svo að síðustu brottkastið er það auðvitað skelfilegt ef satt reynist sem hér kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að þarna hafi átt í hlut íslenskt skip. Það verður ekki skemmtilegt veganesti fyrir íslenska samningamenn að fara með það á bakinu í viðræður við Norðmenn um þessi mál ef norska strandgæslan reynist þarna hafa myndað kerfisbundið og vélvætt brottkast á smásíld, einmitt við nýtingu á þessum sama stofni sem þá á augljóslega í hlut. Hópurinn er svo sem ekkert mjög stór ef um er að ræða eitt af íslensku vinnsluskipunum sem voru þarna við veiðar sl. sumar. Það er kannski ekki aðalatriði málsins hvort sá aðili verður nafngreindur heldur hitt að það er skelfilegt til þess að vita ef þessir hlutir sannanlega ganga svona fyrir sig. Ég hef reyndar alla tíð verið þeirrar skoðunar að það væri hreint siðleysi að stefna ekki að því að nýta allt sem veitt er og við vitum að í þessum tilvikum er það tæknilega ekkert minnsta vandamál þar sem í hlut eiga skip sem hafa kælitanka til að geyma afskurð og úrgang og gætu með reglubundnu millibili komið honum til hafnar. Það mætti líka hugsa sér að skipuleggja flutninga á hratinu frá vinnsluskipunum til bræðslu í landi hvar úr því geta orðið umtalsverð verðmæti ef rétt er á málum haldið.

Það er alveg hörmulegt að mönnum skuli í raun og veru ekki hafa miðað hænufet í þessum efnum á Íslandi núna í tíu ár eða meira, frá því að menn gáfust upp með áform um að vinnsluskip skyldu, að tilteknum aðlögunartíma fengnum, koma með allt að landi. Þetta var brotið niður, þau áform voru brotin á bak aftur þannig að þegar sá aðlögunartími sem skipin höfðu til að útbúa sig í þetta var útrunninn var auðvitað bara ákvæðið fellt úr gildi, menn gáfust upp, létu undan hagsmunum útvegsmanna sem ætluðu sér aldrei að virða þetta ákvæði og gengu fram í því að brjóta það niður.

Síðan eru, ef ég man rétt, liðin ein átta eða níu ár og nánast ekkert gerist. Ef eitthvað er er þróunin að fara í öfuga átt því að t.d. í tilviki uppsjávarfiskanna, sérstaklega síldarinnar, er meira og meira af vinnslunni að færast út á sjó með þeim afleiðingum að allt hratið fer í hafið í staðinn fyrir að sú vinnsla kæmi í land og væri unnin þar við hliðina á bræðslu. Afgangurinn var þó a.m.k. bræddur. Ef rétt er upplýst að nýtingarprósentan sem Fiskistofa miðar þarna við séu 50% urðu þó a.m.k. 50% að verðmætum í landi, mjöl og lýsi.

Mér finnst ástæða til að taka undir það sem hér var nefnt til umræðunnar, að þarna eru hlutir auðvitað ekki eins og þeir ættu að vera. Við hefðum ekki úr miklu að moða í umræðum um þessi mál ef farið yrði ofan í saumana á þeim, hvernig við stöndum að nýtingunni og hversu mikið af verðmætum fer þarna forgörðum, að því er virðist eingöngu vegna þess að menn láta undan ýtrustu kröfum útvegsmanna um að fá að nýta stofninn til að skera úr honum verðmætustu bitana og henda hinu í hafið. Það er það sem þarna er verið að gera, það er ósköp einfalt.