2004-02-19 14:32:50# 130. lþ. 68.4 fundur 482. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eins og jafnan hefur verið samstaða um það hér í þessu þingi að framlengja og endurnýja þennan samning við Færeyinga. Það er tvennt sem ég vildi í örstuttri ræðu leggja sérstaka áherslu á. Í fyrsta lagi er nauðsyn á að við Íslendingar þróum þá möguleika sem er að finna í þeim ákvæðum samningsins sem lúta að makrílveiðum. Ég held að makríll sé ein þeirra tegunda sem við Íslendingar gætum nýtt betur og ættum að freista þess að gera.

Í öðru lagi vil ég svo taka vara við þeim veiðum úr lúðustofninum sem ýtt er undir með þessum samningi. Ég sé síst eftir því að frændur vorir, Færeyingar, njóti afraksturs þessa samnings en ég held að lúðustofninn á Íslandi sé kominn í það ásigkomulag að við þurfum að gæta okkar mjög varðandi hann og ef þessi samningur er svipaður hinum fyrri veit ég að gert er ráð fyrir því að Færeyingar hafi sérstaka heimild til að veiða lúðu. Ég hef lagt fram fyrirspurn í þinginu sem varðar lúðuveiðar við Íslandsstrendur. Ég hef áhyggjur af þeim stofni. Ég tel að sóknin í hann sé of mikil og ég tel að þessi gullvægi fiskur sem nýtur nú sérstakrar stöðu í fiskveiðum Íslendinga eigi undir högg að sækja.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra um leið og ég lýsi almennu samþykki við þetta mál sem hann flytur: Kemur til greina að þegar menn ráðast til framlengingar á þessum samningi í framtíðinni verði reynt að undanþiggja lúðuna? Kemur til greina að reynt verði að undanskilja hana og veita Færeyingum fremur ívilnanir með einhverjum öðrum hætti, eins og þeir sannarlega eiga skilið?