2004-02-19 14:36:21# 130. lþ. 68.4 fundur 482. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir flest það sem hæstv. ráðherra segir. Í máli hans kemur fram að honum er ekki kunnugt um stöðu lúðunnar. Það er mér ekki heldur, ekki nákvæmlega. En svo vel ber í veiði fyrir hæstv. ráðherra að formaður Samf. hefur lagt fram ítarlega fyrirspurn um hana í þinginu og mér verður heiður að því að senda hæstv. utanrrh. svarið. Þá veit hann allt um lúðuna þegar það svar liggur fyrir.

Menn ráðast í að gera þessa samninga og svo eru þeir kynntir eftir á í þinginu. Ég held að þessi athugasemd og þessar örstuttu umræður okkar um lúðuna séu gott veganesti inn í það þegar menn ráðast í að gera samning við frændur vora og frænkur í Færeyjum um þorsk og lúðu.

Ég ítreka það sem ég hef sagt, lúðan á undir högg að sækja. Hún veiðist í töluverðum mæli sem meðafli. Hún er einn af þessum langlífu fiskum sem verða kynþroska tiltölulega seint og þeim er jafnan hætta búin þegar sókn er mjög þung vegna þess að töluvert er tekið af þeim sem meðafla.

Um þetta ætla ég ekki að segja meira en styð auðvitað ríkisstjórnina í því að halda uppi sem bestum tengslum við okkar góðu vini í Færeyjum. Við viljum þeim allt hið besta. Ég var sannarlega stoltur af því á sínum tíma að sitja í ríkisstjórn sem gerði við Færeyinga rausnarlegan samning um fiskveiðar þegar þeir áttu í töluverðum vandkvæðum með efnahagslíf sitt. Þá stóð ekki vel á fyrir okkur hvað fiskveiðar varðar en sá samningur þótti mér undirstrika það allra besta í samskiptum þessara tveggja þjóða.