2004-02-19 14:38:08# 130. lþ. 68.4 fundur 482. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[14:38]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur aðeins komið til tals í umræðunni að samningar sem þessir séu lagðir fram eftir á. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson var ekkert að gagnrýna það en ég vildi aðeins leggja á það áherslu að ég tel mjög mikilvægt að samningar sem þessir séu lagðir fyrir Alþingi. Það sýnir mikilvægi fiskveiða í þjóðarbúskap okkar. Ég tel það vera mjög mikilvægan sið, en ekki bara það heldur verður ekki vikist undan því. Jafnvel þótt ekki sé hægt að snúa til baka eru þessir samningar ávallt í gangi. Það þarf að semja á nýjan leik og þess vegna eru umræður á Alþingi mikilvægt veganesti inn í áframhaldið, m.a. að því er varðar samninga við Færeyjar og þau vinsamlegu samskipti sem við höfum átt við þessa bræðraþjóð. Það er mikilvægt fyrir okkur sem stöndum að þessum samningum og jafnframt mikilvægt fyrir Færeyinga í þessu tilviki að vita að einhugur ríkir á Alþingi um samskipti við þá vina- og bræðraþjóð.