2004-02-19 14:39:30# 130. lþ. 68.4 fundur 482. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra um þetta. Það er nauðsynlegt að svona samningar séu teknir fyrir á hinu háa Alþingi, þingmönnum séu kynntir þeir og þeir fái þinglega meðferð.

Eitt atriði sem tengist slíkri umfjöllun getur hjálpað þeim sem fara með samninga fyrir okkar hönd. Hæstv. utanrrh. hefur stundum legið hér undir gagnrýni og á árum fyrr harðri gagnrýni þegar samningar voru að hefjast um veiðar og skiptingu hlutdeildar úr norsk-íslenska stofninum. Eins og hæstv. utanrrh. man sveið honum stundum undan þeim orðum sem hér féllu í þeim hörðu umræðum. Ég er hins vegar sannfærður um að þær umræður hafa orðið hæstv. ráðherra gott veganesti, og ekki bara að því leyti til að þær hafi upplýst hann betur um stofninn sem um var að tefla. Hitt skipti miklu meira máli að hæstv. ráðherra gat farið til samninga við hinar óbilgjörnu samningaþjóðir, sérstaklega Norðmenn, með það í farteskinu að það sem hann væri að gera væri m.a. vegna þess að harður þrýstingur væri í þinginu um að Íslendingar fengju meiri hlutdeild.

Ég held að umræður af því tagi, hvort sem þær kunna að vera vinsamlegar milli stjórnar og stjórnarandstöðu þegar þær eru háðar eður ei, séu partur af sameiginlegri viðleitni okkar til að tryggja hag okkar sem best. Þegar hæstv. utanrrh. fer til samninga eftir að hafa átt hér í hörðum deilum um að ýmsar tillögur sem liggja á borðinu séu ónógar að mati þingmanna er staða hans í samningunum styrkari en ella. Þess vegna er hárrétt hjá honum að það hefur margvíslega nytsemd í för með sér að svona samningar séu ræddir og lagðir fyrir þingið.