Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 14:49:59 (4448)

2004-02-19 14:49:59# 130. lþ. 68.7 fundur 344. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# (erfðablöndun) frv., Frsm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Frsm. sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Sjútvn. fékk til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum um eldi nytjastofna sjávar og hefur skilað af sér eftirfarandi nál., með leyfi forseta:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristin Hugason frá sjávarútvegsráðuneyti. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá fiskeldisnefnd, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Hafrannsóknastofnuninni og Umhverfisstofnun sem allar voru mjög jákvæðar.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfestar verði heimildir sjávarútvegsráðherra til að takmarka eða banna eldi á lifandi sjávardýrum og verja stofna íslenskra sjávardýra gegn óæskilegum áhrifum erfðablöndunar við aðra stofna sömu tegundar eða innfluttra tegunda eða stofna sem ekki finnast við Íslandsstrendur ef ljóst þykir að aðrar verndar- og friðunaraðgerðir duga ekki til.

Nefndin telur að gildissvið frumvarpsins sé of þröngt miðað við gildissvið laganna um eldi nytjastofna sjávar sem frumvarpinu er ætlað að breyta. Nefndin leggur því til að gildissviðið verði samræmt lögunum þannig að heimild ráðherra nái ekki eingöngu til lifandi sjávardýra heldur til nytjastofna, en undir það falla samkvæmt skilgreiningu laganna sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjaður er eða kann að verða nytjaður í íslenskri fiskveiðilandhelgi, íslensku landgrunni eða á landi með eldi.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 1. gr. Greinin orðist svo:

Við 4. mgr. 3. gr. laganna bætist: þar á meðal um takmörkun eða bann eldis á nytjastofnum er lög þessi ná til ef ljóst þykir að aðrar verndar- og friðunaraðgerðir sem kveðið er á um í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum duga ekki til að koma í veg fyrir erfðablöndun við staðbundna stofna eða að líffræðilegri fjölbreytni sé ógnað og tegundum eða stofnum stefnt í hættu.

Hjálmar Árnason og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. febr. 2004. Kristinn H. Gunnarsson, form., frsm., Guðjón Hjörleifsson, Jóhann Ársælsson, Einar K. Guðfinnsson, Kristján L. Möller, Magnús Þór Hafsteinsson, Arnbjörg Sveinsdóttir.