Starfsmenn í hlutastörfum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 14:59:17 (4450)

2004-02-19 14:59:17# 130. lþ. 68.8 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv., Frsm. meiri hluta HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[14:59]

Frsm. meiri hluta félmn. (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um starfsmenn í hlutastörfum frá meiri hluta félmn.

Nefndin hefur fjallað nokkuð ítarlega um málið, fengið til sín fjölmarga gesti og farið yfir skriflegar umsagnir frá ýmsum aðilum eins og tíundað er á þskj. 885.

Frumvarp þetta um starfsmenn í hlutastörfum byggir á innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins, en hin sameiginlega EES-nefnd samþykkti að fella þetta ákvæði undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og byggir það á ákvörðun nr. 104/1998.

[15:00]

Virðulegur forseti. Segja má að síðan þá hafi aðilar vinnumarkaðarins verið með þetta mál í sínum höndum. Félmrn. fól aðilum vinnumarkaðarins að fara yfir það og hvatti til að fulltrúar atvinnurekenda og launþega kæmu sér saman um málið enda má segja að það lúti að ákvæðum kjarasamninga og kjörum starfsmanna.

Skemmst er frá því að segja, virðulegur forseti, að í nokkuð mörg ár hafa aðilar vinnumarkaðarins verið með málið í sínum höndum en ekki náð samkomulagi. Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafa náð samkomulagi en sveitarfélög og ríki annars vegar og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hins vegar hafa ekki náð samkomulagi. Ágreiningurinn lýtur að 3. mgr. 2. gr., um gildissvið frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ákvæði laga þessara taka ekki til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga, sem á grundvelli hlutlægra ástæðna fá greitt tímavinnukaup, enda byggist sú undanþága á kjarasamningi, ákvörðun stjórnvalds eða venju í slíkum tilvikum.``

Um þetta hefur sem sagt ekki náðst samkomulag milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja annars vegar og fulltrúa ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Þrátt fyrir hvatningu starfsmanna félmrn. til viðkomandi aðila um að ná saman þá hefur það ekki tekist. Nú er svo komið að tíminn sem Evrópusambandið gefur er liðinn. Verði þessi lög ekki innleidd má búast við kæru frá EFTA vegna þess að við höfum ekki innleitt þau. Við erum fallin á tíma ef svo má orða það.

Það er mat meiri hluta hv. félmn. að, eins og fram kemur í frv., í greinargerð með frv. sem og í nál. frá meiri hluta félmn., markmið frv. sé fyrst og fremst að bæta stöðu þeirra starfsmanna sem eru í hlutastörfum án þess að óeðlilegar kvaðir verði lagðar á atvinnulífið. Hlutastörf hafa færst nokkuð í vöxt og fela í sér ákveðinn sveigjanleika, bæði fyrir starfsfólk og fyrirtæki.

Það er rétt að leggja á það áherslu, virðulegur forseti, að um er að ræða atriði sem snerta starfshætti og kjör starfsmanna en frv. er á engan hátt hafið yfir kjarasamninga. Það er því mat meiri hluta félmn. að þetta sé atriði sem aðilar vinnumarkaðar eigi að ná saman um, eins og virðist hafa orðið á milli Samtaka atvinnulífsins og ASÍ.

En þetta hefur ekki tekist að fullu þannig að meiri hluti hv. félmn. mælir með samþykkt frv. með örlitlum breytingum. Annars vegar er orðalagsbreyting en þó er ein efnisleg breyting sem meiri hlutinn leggur til, þ.e. að verði frumvarpið að lögum verði þau tekin til endurskoðunar innan tveggja ára. Með því er í raun verið að hvetja þá aðila sem ekki hafa náð saman til þess að gera úrslitatilraun til að ná samningum, þ.e. að að tveimur árum liðnum komi lögin í eðlilega endurskoðun og staðan metin í því ljósi.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að það mun almennt viðurkennt í kjarasamningum að fólk sem ráðið er tímabundið og er á svokölluðu tímakaupi fái hlutfallslega hærri laun á klst. vegna þess ráðningaforms. Það er líka rétt að árétta að það er ekkert í þessum lögum sem tekur yfir kjarasamninga. Það eru þau meginsjónarmið sem ég kynni fyrir hönd meiri hluta hv. félmn. Það er eðlilegt að aðilar vinnumarkaðarins nái saman um þetta atriði í viðræðum sínum, hvort heldur er í kjarasamningum eða í viðræðum um að ná saman í umsögn um frv. á borð við þetta.

Þá leið sem hér er farin má kalla dönsku leiðina. Þetta er sambærileg leið og Danir fóru við innleiðingu á þessari tilskipun Evrópusambandsins þar sem fólk á tímavinnu á vegum hins opinbera er undanskilið lögunum enda er gert ráð fyrir að kjarasamningar gæti hagsmuna og kjara þeirra.

Meira er í raun ekki um þetta að segja, virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir sjónarmiðum á bak við álit meiri hluta hv. félmn. sem og þeim breytingum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til að verði gerðar. Það er rakið á þskj. 885. Meiri hluti félmn. mælir með því að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef getið um.