Starfsmenn í hlutastörfum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 15:46:17 (4457)

2004-02-19 15:46:17# 130. lþ. 68.8 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[15:46]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kjarni þess að skiptar skoðanir eru um málið í þingsal virðist mér vera að málefni þetta hefur snúist upp í kjaradeilu, einkum á milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og viðsemjenda þess.

Umsögn BSRB um frv. ber vitni um þetta. Þar er talað um að vissir hópar hafi ekki rétt á símenntunarálagi og rétt á endurmenntun, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur rakið. Tilteknir hópar fá ekki bakvaktargreiðslur, veikindarétt o.s.frv. Atvinnurekendahliðin fullyrðir að heildargreiðslur til starfsmanna í hlutastörfum séu hærri en til þeirra sem eru í fullu starfi og þar með sé tryggt að þeir búi ekki við mismunun í samanburði við starfsmenn í fullu starfi. Það sé því í fullu samræmi við efni tilskipunarinnar að undanskilja þessa hópa frá gildissviði hennar. Þeim séu tryggð sambærileg kjör og starfsmönnum í fullu starfi þegar á heildina er litið.

Það hefur verið rakið, hæstv. forseti, að félmrn. hefur leitast við að finna sáttaleið. Niðurstaðan varð sú að bæta við 3. mgr. 2. gr. ákvæði um að aðilum vinnumarkaðarins beri að endurskoða reglulega hvort þær hlutlægu ástæður sem lagðar eru til grundvallar undantekningunum séu enn í gildi. Meiri hluti félmn. hefur ákveðið að leggja til að enn verði hert á ákvæðinu með því að bæta við bráðabirgðaákvæði sem kveði á um endurskoðun þess innan tveggja ára. Meiri hlutinn telur að ekki eigi aðeins að skylda aðila vinnumarkaðarins til slíkrar endurskoðunar, eins og lagt hafði verið til í frv., heldur verði einnig að mæla fyrir um endurskoðun löggjafans á undantekningarákvæðinu, verði frv. að lögum.

Hæstv. forseti. Fyrir mitt leyti get ég fallist á þessa breytingu.

Það er rétt að ítreka að mikið hefur verið reynt að koma þessu máli heim og saman. Hvorki gekk né rak þrátt fyrir um 40 samningafundi þeirra aðila sem hér um ræðir og þrátt fyrir að félmrn. hafi ítrekað reynt að koma málinu saman hefur það því miður ekki tekist.