Starfsmenn í hlutastörfum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 15:53:10 (4461)

2004-02-19 15:53:10# 130. lþ. 68.8 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv., AtlG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[15:53]

Atli Gíslason:

Frú forseti. Ég tel lagalega annmarka vera á frv. sem valda því að innleiðing þess tekst ekki og vil skýra það nánar. Ég fer beint yfir í þá grein sem skiptir mestu sem er 3. mgr. 2. gr., þar sem er fjallað um undanþágu á grundvelli hlutlægra ástæðna þeirra sem fá greitt tímavinnukaup. Þeir sem fá greitt tímavinnukaup af hlutlægum ástæðum eru útilokaðir frá réttindum samkvæmt 4. gr., það gefur auga leið.

Það er ótrúlega margt fólk sem tekur tímavinnukaup hjá ríki og sveitarfélögum. Textinn sem um ræðir er of rúmur miðað við tilskipunina og rímar illa við grg. með frv.

Það kemur fram í frv. á bls. 6 að tilefni frv. sé innleiðing EES-tilskipana og athugasemdir frá ESA. Ég sé ekki betur en hér sé verið að taka tillit til athugasemda ESA án þess að innleiða það sem til stóð. Það kemur fram í athugasemdum við 2. gr. til hvaða launamanna þetta hafi tekið hjá ríkinu. Þar er talið upp skólafólk, starfsmenn sem starfa óreglubundið í lengri eða skemmri tíma o.fl. Það er alveg dæmigert hlutastarfsfólk.

Það er galli á frv. og galli á athugasemdunum að ekki er gerð grein fyrir því hvað séu hlutlægar ástæður. Þær hlutlægu ástæður byggjast ekki á því að menn vinni í hlutastarfi um lengri tíma, það gefur augaleið. Greinargerðin og athugasemdirnar virðast svona ,,haltu mér, slepptu mér``, það er verið að reyna að halda í eitthvað og sleppa einhverju, lagasetningin er í besta falli mjög ónákvæm og innleiðir ekki það sem til stóð. Það er óbreytt ástand gagnvart starfsmönnum hjá ríki og sveitarfélögum, það les ég út úr þessu.

Ég vil vekja athygli á því að skilgreiningin á starfsmanni í hlutastarfi í 3. gr. laganna er ekki með þessum takmarkaða hætti, hún gengur miklu lengra. Þar eru hlutastarfsmenn túlkaðir með mun rýmri hætti en í 3. mgr. 2. gr.

Ég vil líka vekja athygli á því, að gefnu tilefni, að samningur milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um hlutastörf tekur eingöngu til ASÍ-félaga, þ.e. Eflingarfélaga og annarra. Hann tekur ekki til fjölmargra Eflingarfélaga eða ASÍ-félaga sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum, samningurinn bindur þá ekki. Ég spyr eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson: Af hverju getur ríkið ekki gengist undir sambærilegan samning og Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands gerðu? Af hverju er það ekki hægt?

Mín eindregna niðurstaða er að innleiðingin hafi ekki tekist. Það kallar á hugsanleg málaferli, líkt og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði. Það getur líka kallað á að Eftirlitsstofnun EFTA hafi sjálfstætt frumkvæði að því að gera athugasemd, þá þarf að byrja á nýjan leik. Þetta er einfalt, það þarf að orða 3. mgr. 2. gr. í samræmi við tilskipunina.