Starfsmenn í hlutastörfum

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 15:57:34 (4462)

2004-02-19 15:57:34# 130. lþ. 68.8 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Frv. sem við ræðum, um starfsmenn í hlutastörfum, er eins og hefur greinilega komið fram ætlað að ná til hluta starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði sem hlutastörfum sinna eða tímavinnuákvæðum í hlutastörfum.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór mjög gaumgæfilega yfir málið og rakti aðdraganda þess ásamt tilvitnunum og skýringum og ég þakka honum sérstaklega fyrir ræðu hans. Hún varpaði mjög skýru ljósi á hvað hér er um að ræða. Þess vegna varð ég verulega hissa þegar ég heyrði rök hæstv. félmrh. þegar hann sagði eitthvað á þá leið --- ég vona að ég sé ekki að leggja honum orð í munn --- að samningur SA og ASÍ væri góður. Ég fæ ekki skilið, ef þetta er góður samningur fyrir þær starfsstéttir, hvers vegna hann telst ekki góður fyrir starfsmenn hjá bæjarfélögum og ríki eða hvers vegna hann telst ekki góður fyrir aðra í hlutastörfum. Ég átta mig, virðulegi forseti, alls ekki á þeirri mismunun sem menn eru að leggja upp með.

Ég tek því undir þann rökstuðning sem hv. þm. Ögmundur Jónasson flutti áðan um að hér sé verið að mismuna launafólki sem starfar við sambærilega ráðningarsamninga og sambærileg skilyrði, tímabundin störf eða hlutastörf. Ég átta mig bara alls ekki á því, virðulegi forseti, af hverju ríkisstjórnarmeirihlutinn vill ekki láta það sem segir í 1. gr. samnings Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins ná til annarra.

Það segir í aðdraganda samningsins að markmiðið sé að afnema mismunun gagnvart starfsmönnum í hlutastarfi, stuðla að auknum gæðum slíkra starfa, að greiða fyrir því að starfsmenn eigi völ á hlutastörfum og sveigjanlegri tilhögun vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til þarfa vinnuveitenda og starfsmanna. Hvers vegna í ósköpunum kemur ríkisstjórnin með málið þannig að þetta geti ekki átt við alla launþega á vinnumarkaði sem eru í hlutastörfum eða tímabundnum störfum?

Virðulegi forseti. Ég átta mig alls ekki á því hvernig mönnum dettur í hug að leggja málið upp með þessum hætti. Það er verið að mismuna launþegum með lagaboði. Það er engin önnur niðurstaða í málinu. Tímavinnufólk eða hlutastarfsfólk innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem vinnur hjá ríki og sveitarfélögum er sett skör lægra og er eiginlega mismunað og meinaður réttur til endurmenntunar og símenntunar samkvæmt því sem hér er verið að semja um. Ég tel að frv. fari algjörlega á skjön við þá hugsun að hér skuli allir jafnir fyrir lögum og að mönnum skuli tryggð sambærileg réttindi fyrir sambærileg störf.

Ég furða mig satt að segja á því, virðulegur forseti, og lýsi yfir andstöðu við frv. eins og það er í pottinn búið að þessu leyti til, að starfsmenn ríkis og bæja séu settir til hliðar og skör lægra en aðrir starfsmenn, og furða mig á því að ríkisstjórnarmeirihlutinn skuli taka málið upp á sína arma og meiri hlutinn í hv. nefnd samþykki það athugasemdalaust.