Varnir gegn mengun sjávar

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 16:28:11 (4468)

2004-02-19 16:28:11# 130. lþ. 68.10 fundur 259. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Össur Skarphéðinsson:

Virðulegi forseti. Það mál sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson flytur hér kann við fyrstu sýn að virðast nokkuð umdeilanlegt. Margir sem hlýða á hið kappsfulla mál þingmannsins kynnu að draga þá ályktun að þetta stríddi gegn ýmsum sáttmálum sem við höfum gert um vernd sjávar. Svo kemur það fram í greinargerð með frv. hv. þm. að þetta er í reynd í samræmi við ákveðna samninga sem við höfum gert.

Hv. þm. Jón Gunnarsson, sem talaði fyrir Samf. benti á að ef gengið væri úr skugga um að ekki væru nein mengandi efni sem gætu smitað út í umhverfið frá þessum skipum hlyti það að vera a.m.k. umhugsunarefni hvort ekki fylgdi þessu ýmislegt jákvætt.

Hv. þm. Jón Gunnarsson drap á það að meðal fiskifræðinga væri vaxandi sú skoðun að það sé heppilegt fyrir uppeldi nytjastofna að búa til svokölluð fiskverndarsvæði. Þessa stefnu hafa menn tekið upp og hrint í framkvæmd í Bandaríkjunum og telja sig hafa sýnt fram á að með því að stofna fiskverndarsvæði aukist töluvert fiskgengd og veiði í grennd við svæðin. Þetta er rökrétt, virðulegi forseti, vegna þess að með því að vernda svæði gefst ungviðinu meira skjól til að vaxa upp.

Veiðar mannsins með ýmiss konar veiðarfærum sem eru dregin á eftir skipum hafa mjög víða jafnað allar misfellur og máð út kennileiti í landslagi á botni. Þetta hefur leitt til þess að það er auðveldara að draga veiðarfærin og um skeið er líklegt að þetta auðveldi veiðarnar. Hins vegar kemur þetta í veg fyrir að ungviði nái að vaxa upp eins og áður. Lítil seiði þurfa skjól. Grjót og ýmiss konar hólar og hæðir og gjár á botni hafa veitt þeim þetta skjól. Þegar búið er að slétta botninn með veiðarfærum eins og notuð eru við togveiðar er búið að draga úr möguleikum viðkomandi svæðis á að framleiða ungviði.

Ég held að eitt af því sem við Íslendingar eigum að skoða sé að koma upp fiskverndarsvæðum. Þá hygg ég að tilvalið sé að fara þá leið sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson reifar hér og nota skip sem eru úr sér gengin og erfitt að farga, varpa þeim niður á botninn og skapa þannig nýtt umhverfi fyrir uppvaxandi stofna. Þetta er nokkuð sem ég held að við eigum að skoða vel. Ég vil segja fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, að ég held að sú nefnd sem fær þetta til umfjöllunar eigi að kalla til sérfræðinga um fiskverndarsvæði til að kanna hvort þetta tvennt geti ekki farið saman og hvort hérna sé ekki um að ræða aðgerð sem geti í senn verið með vissum hætti partur af umhverfisverndarstefnu og jafnframt sé þarna verið að ýta undir vöxt fiskstofna.