Flutningur Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 16:44:41 (4470)

2004-02-19 16:44:41# 130. lþ. 68.13 fundur 300. mál: #A flutningur Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[16:44]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um úttekt á kostum þess að flytja höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Drífa Hjartardóttir, Brynja Magnúsdóttir, Jón Gunnarsson og Grétar Mar Jónsson.

Ályktunin hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að dómsmálaráðherra láti gera úttekt á kostum þess að flytja höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Skal þeirri úttekt lokið fyrir 15. febrúar 2004.``

[16:45]

Virðulegur forseti. Af augljósum ástæðum er þessi dagsetning úrelt. Það lýsir því hve seint mál komast á dagskrá. Það var nokkuð langt í þessa dagsetningu þegar frv. var upphaflega lagt fram. Ég geri ráð fyrir því að allshn. muni breyta dagsetningunni en hafa hana samt ekki of rúma. Þetta er í raun afskaplega einföld þáltill., þ.e. um að láta fara fram úttekt á kostum þess að flytja höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar.

Í greinargerð eru færð fram rök sem öll hníga að því færa höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja og ég vil taka fram, hæstv. forseti, að upphaflega var þetta mál flutt á Alþingi af hv. þm. Árna Ragnari Árnasyni fyrir margt löngu en var þá ekki útrætt. Það hefur síðan komið reglulega til umræðu án þess að mikið hafi gerst í málinu. Þeir hv. þm. sem flytja þessa þáltill. eiga það allir sammerkt að vera þingmenn Suðurk. Ég vík þá að nokkrum rökum fyrir því mati okkar flutningsmanna að höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar væru betur settar á Suðurnesjum en í Reykjavík.

Í fyrsta lagi teljum við að staðsetning höfuðstöðvanna í Reykjavík sé ekki rétt, einkum með hliðsjón af þeim verkefnum sem skip og flugvélar Landhelgisgæslunnar sinna. Fyrir því að hafa höfuðstöðvarnar staðsettar á Suðurnesjum og hafa þar lægi fyrir skip og vélar gæslunnar má færa einföld rekstrarrök. Þá sparast siglingin inn Faxaflóann enda má segja að hlutverk Landhelgisgæslunnar sé minnst fólgið í eftirliti innst í Faxaflóanum. Með því að vera staðsett á Suðurnesjum má segja að skipin séu betur sett til að fara úr höfn. Þau eru þar með nær miðum, hvort heldur er fyrir norðan, sunnan, vestan eða austan landið. Þetta eru sem sagt rekstrarleg rök. Þessu mundi fylgja sparnaður á olíukostnaði og þar að auki má líta á það sem öryggisrök að færa skipakost Landhelgisgæslunnar nær vettvangi, þeim vettvangi sem skipin oftast sinna.

Það hlýtur að vera hagræði að því að hafa höfuðstöðvarnar á Suðurnesjum og láta hluta þeirrar starfsemi vera á Keflavíkurflugvelli. Það snertir samskipti við varnarliðið en eins og kunnugt er hefur stundum komið upp misskilningur sem haft hefur alvarlegar afleiðingar. Miklar deilur hafa orðið um slík tilvik. Það hlýtur að vera hagkvæmt og mikið hagræði og samlegðaráhrif af því að hafa björgunarsveit varnarliðsins og þyrlur Landhelgisgæslunnar á sama stað. Það má benda á að flugskýli Flugleiða er staðsett á Keflavíkurflugvelli þar sem flugvirkjar þess ágæta fyrirtækis eru starfandi. Þar getur viðhald og geymsla á vélunum auðveldlega farið fram. Þar eru líka ákveðin samlegðaráhrif.

Á Suðurnesjum eru starfræktar tvær öflugar viðhaldsstöðvar flugvéla --- önnur er í eigu Flugleiða og hin er á vegum varnarliðsins. Á vegum Flugfélags Íslands eru Fokker Friendship flugvélar en flugvél gæslunnar er af sömu tegund. Ætla má að ná megi samlegðaráhrifum með auknu samstarfi um viðhald og eftirlit flugvéla. En það er auðvitað líka viðhaldsstöð á vegum varnarliðsins í stórum skýlum sem mundu nýtast með formlegu samkomulagi ef höfuðstöðvarnar yrðu fluttar á Suðurnesin.

Fyrir þessu eru fyrst og fremst rekstrarleg rök og öryggisrök og ætti í raun ekki að þurfa meira. En óneitanlega, herra forseti, má einnig benda á byggðarök, eins og það er kallað, ef við horfum til þess atvinnuástands sem nú er á Suðurnesjum. Hvergi í landinu eru atvinnuleysistölur jafnháar og virðist hugsanlega meira í pípunum miðað við það sem maður heyrir frá fulltrúum Bandaríkjahers um fækkun starfsmanna vegna breyttra áherslna, fjárhagsörðugleika í Bandaríkjunum og þar fram eftir götunum. Þar kann að skapast enn alvarlegra ástand. Þegar þau sjónarmið bætast við rekstrarrökin og öryggisrökin, þ.e. að styrkja atvinnulíf á svæðinu, má segja að rökin fari öll að hníga á einn veg. Það munar um hvert starf og að auka fjölbreytileika í störfunum.

Þetta eru aðeins hugleiðingar og röksemdafærsla flutningsmanna en þáltill. gerir hins vegar ráð fyrir því að dómsmrh. láti gera hlutlausa úttekt þar sem kostum og göllum þess að flytja höfuðstöðvarnar til Suðurnesja yrði velt upp. En það er sannfæring okkar að niðurstaða af slíkri úttekt hljóti að verða skýr, þegar allt er tekið með í reikninginn, öryggi, rekstur og síðan byggðapólitísk sjónarmið. Við vonumst til þess að með flutningi tillögunnar munum við sjá höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar flytjast til Suðurnesja þar sem þær ættu að vera betur settar en hér í 101 Reykjavík.

Að umræðu lokinni, hæstv. forseti, mælist ég til að þáltill. verði vísað til hv. allshn. þingsins.