Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 15:31:58 (4484)

2004-02-23 15:31:58# 130. lþ. 69.95 fundur 348#B aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Össur Skarphéðinsson:

Hæstv. forseti. Þegar erfiðir kjarasamningar eru fram undan eins og núna og vaxandi óvissa ríkir um framvindu efnahagsmála skiptir miklu máli að launamenn geti treyst þeirri ríkisstjórn sem situr. Við munum að slíkt traust var forsenda þeirrar þjóðarsáttar sem var gerð 1989 þegar þjóðin náði saman niður verðbólgunni.

Þessi ríkisstjórn verðskuldar hins vegar ekki traust launamanna. Hún hefur þegar svikið mörg þau loforð sem hún gaf og skiptu launamenn ákaflega miklu. Hún lofaði að ná niður atvinnuleysi en ekkert hefur dregið úr því. Hún lofaði að hjálpa efnalitlu fólki með því að hækka húsnæðislánin upp í 18 millj. kr. en hún hefur ekki gert það. Hún lofaði að bæta kjör atvinnulausra en hún sveik það. Hún lofaði auknum fjárveitingum til öryrkja í kosningabaráttunni en hún stóð ekki við þær. Og hún lofaði að lækka skatta um 25 milljarða eins og hæstv. utanrrh. og sitjandi forsrh. var að rifja hér upp en hún efndi það með því að hækka skattana strax í haust.

Bensínskatturinn hækkaði. Þungaskatturinn hækkaði. Meira að segja sérstakur frádráttur vegna lífeyrissparnaðar var afnuminn og skattahækkanir á þessu ári nema milljörðum króna. Og það er ekkert heilagt. Þeir sem minnst mega sín, þeir sem minnst eiga, þeir sem draga fram lífið á strípuðum bótum og voru áður skattlausir þurfa núna að greiða í skatt sem svarar mánaðarlegum bótum. Þegar ríkisstjórnin lagði loks fram frv. um lítilvæga lækkun erfðafjárskatts gat hún ekki á sér setið, hún lagði líka til sérstaka skattahækkun á líknarfélög, kirkjur og öryrkja. Þetta heitir að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, hæstv. forseti, og ég verð að segja að verkalýðshreyfingin getur ekki reitt sig á orð ríkisstjórnarinnar.

Þetta er ríkisstjórn hinna sviknu loforða.