Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 15:34:13 (4485)

2004-02-23 15:34:13# 130. lþ. 69.95 fundur 348#B aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það liggur í hlutarins eðli að ríkisstjórnin mun reyna að greiða fyrir gerð kjarasamninga eftir því sem í hennar valdi stendur. Þetta mál er hins vegar það skammt á veg komið að enn hefur ekki á það reynt með hvaða hætti best verður fyrir komið aðkomu ríkisstjórnarinnar að því. Vonandi tekst þó að ljúka þessum kjarasamningum innan tiltölulega skamms tíma og þá mun koma í ljós hver aðkoma ríkisstjórnarinnar verður.

Eins og kom fram í máli hæstv. utanrrh. hafa nokkur atriði öðrum fremur verið nefnd í þessu sambandi, mál sem hafa verið rædd í sölum þingsins nokkrum sinnum, svo sem jöfnun lífeyrisréttinda. Ekki er komin niðurstaða í það. Líka liggur fyrir ákveðin krafa af hálfu verkalýðshreyfingarinnar gagnvart atvinnuleysisbótum. Ekki er heldur komin niðurstaða í neitt af því.

Að því er varðar skattalækkanir liggur alveg fyrir og er algjörlega óbreytt, alveg sama hvað hv. þm. Össur Skarphéðinsson heldur áfram að berja höfðinu við steininn, að stefna ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í málefnasamningi hennar er sú að það verði gengið í að lögfesta hér þær skattalækkanir sem við höfum talað um, eins og utanrrh. lýsti, að loknum þessum kjarasamningum. Ef það liggur núna fyrir að þeir séu að takast á næstu dögum eða vikum verður komið að ríkisstjórninni að skila sínu í þeim efnum en auðvitað verður ekki um þau mál samið við samningaborðið í kjarasamningum, ekkert frekar en ríkisstjórnin getur beitt sér fyrir tiltekinni hækkun lægstu launa. Úr því verða aðilar vinnumarkaðarins sjálfir að greiða þó að ríkisstjórnin fagni því að sjálfsögðu ef tekst að koma málum þannig fyrir að þeir sem minnst bera úr býtum fái mestu kjarabótina í þessum kjarasamningi.