Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 15:38:44 (4487)

2004-02-23 15:38:44# 130. lþ. 69.95 fundur 348#B aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir að taka þetta mál hér upp. Ég held að fullt efni sé til þess, m.a. vegna þess hvernig hæstv. ríkisstjórnin sjálf hefur gefið upp boltann í þessum efnum, einkum og sér í lagi formaður Framsfl., hæstv. utanrrh. og starfandi hæstv. forsrh. Þegar skattalækkunarloforðin voru jafnvel farin að ganga fram af loforðasmiðunum sjálfum í kosningabaráttunni sl. vor greip formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., iðulega til þess ráðs að spyrða þau saman við væntanlega kjarasamninga og endurtók það í umræðum aftur og aftur að þetta yrði nánar útfært í tengslum við kjarasamninga.

Nú segir hins vegar hæstv. fjmrh. að þetta séu tveir óskyldir hlutir, skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar muni koma til framkvæmda að loknum kjarasamningum og þau séu ekki samningsatriði í þeim samningum. Ég leyfi mér að spyrja: Hvort gildir? Hvor talar fyrir ríkisstjórnina, hæstv. utanrrh. eða hæstv. fjmrh.? Þarna er greinilega talað með talsvert ólíkum hætti um hlutina.

Síðan fannst mér hæstv. starfandi forsrh. hegða sér hér í ræðustólnum eins og hann væri nánast yfir það hafinn að svara þeim spurningum sem fyrir hann voru bornar. Er það þannig, eins og ráða mátti af svörum eða öllu heldur svaraleysi hæstv. ráðherra, að ríkisstjórnin hafi engar meiningar um lágmarkslaun og lægstu laun í landinu? Hvar er svarið við spurningunni um áformin um sjómannafrádráttinn? Standa þau? Og ýmis önnur áform ríkisstjórnarinnar sem auðvitað hafa torveldað andrúmsloftið í samskiptum aðila vinnumarkaðarins. Eru skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar sem fyrst og fremst gagnast hátekjufólki og eignamönnum líkleg til að greiða fyrir lausn almennra kjarasamninga ef ekki á að hrófla við persónufrádrætti upp á við eða öðru slíku?

Nei, ég held að hæstv. ríkisstjórn verði að gera betur en þetta og lágmark að menn geri a.m.k. tilraun til þess að svara þeim spurningum sem hér eru fyrir þá bornar.