Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 15:44:47 (4490)

2004-02-23 15:44:47# 130. lþ. 69.95 fundur 348#B aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það hefur margsinnis verið í umræðunni á Íslandi að æskilegt væri að hækka lægstu laun. Við eigum langa sögu að baki, sögu mikilla mistaka um það. Það hefur ekki gengið eftir sem menn hafa viljað. Það var fyrst árið 1995 og 1997 sem tókst að gera verulegt átak í því að hækka lægstu laun á Íslandi. Við skulum minnast þess hvernig stóð á því að það tókst. Það tókst vegna þess að allir aðilar vinnumarkaðarins, allir hagsmunaaðilar á landinu, komu sér saman um að nota ekki lægstu laun sem viðmiðun fyrir kjarabaráttu sína. Þess vegna tókst að ná þessum árangri.

Þess vegna vara ég við og segi: Einhverjar fullyrðingar, einhverjar meiningar, eitthvert valdboð um það hvernig fara skuli með lægstu laun held ég að sé dæmt til að mistakast. Við náum aldrei árangri öðruvísi en með samningum allra aðila. Það ber að vekja á því athygli að því miður hefur þróunin orðið sú að menn eru núna farnir að nota þessa samninga frá 1995--1997, þegar við hækkuðum lægstu launin, sem viðmiðun í nýja kröfu segjandi að menn hafi nú ekki fylgt þróun lægstu launa í staðinn fyrir að benda á það sem rétt er, að bætur eiga að fylgja almennri launaþróun.

Ég vil hins vegar, herra forseti, taka undir áhyggjur málshefjanda um þróun örorkubótanna og hvernig hinir frjálsu lífeyrissjóðir standa gagnvart henni. Þetta er mjög alvarlegur hlutur og okkur ber að horfast í augu við hann. Enginn má undan líta. Því fyrr sem við horfum til þess, því betra. Þetta er hlutur sem ég held að ríkisvaldið gæti hjálpað til með. Við eigum að skoða það alvarlega.