Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum

Mánudaginn 23. febrúar 2004, kl. 15:47:00 (4491)

2004-02-23 15:47:00# 130. lþ. 69.95 fundur 348#B aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum# (umræður utan dagskrár), Flm. AtlG
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Atli Gíslason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Þau sögðu mér að vísu fátt sem ég vissi ekki fyrir og ég verð að segja það enn og aftur að ég harma áhersluröð ríkisstjórnarinnar. Hún gengur gegn réttlætiskennd minni, gengur gegn uppeldi mínu. Ég sé ekki að raða þurfi stóreignafólki og hátekjufólki fremst. Maður byrjar á hinum endanum. Maður dæmir þjóðfélag, þar á meðal íslenska þjóðfélagið, eftir því hvernig við reynumst gagnvart þeim sem minna mega sín. Við stöndum okkur illa í því. Sá reikningur sem við erum að búa til fyrir framtíðina að því leyti verður dýr vegna þess að við erum að búa til vandamál í dag sem verða vandamál í fjöldamörg ár.

Kannski er ekki vinsælt í kosningum að horfa 20, 30, 40 ár fram í tímann. Kannski á maður bara að kíkja fjögur ár eða jafnvel bara einn dag. Svörin sögðu mér fátt og engu var svarað um sjómannaafsláttinn. Ég vil hins vegar minna hæstv. utanrrh. á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru jákvæð ákvæði um að jafna launamun kvenna og karla. Það verður ekki gert nema lyfta lægstu launum. Það er útilokað að gera það með öðrum hætti.

Ég get verið sammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni um að þarna þurfi þríhliða viðræður en ríkisvaldið verður að koma þar inn í með frumkvæði, með hugmyndir og vera með í því. Ég held, hef a.m.k. heyrt það, að þær viðræður sem áttu sér stað sl. föstudag hafi nánast engu skilað.